ÍR hélt fluginu áfram í Árbænum

Karen Tinna Demian, til vinstri, skoraði 10 mörk fyrir ÍR …
Karen Tinna Demian, til vinstri, skoraði 10 mörk fyrir ÍR í kvöld. Ljómynd/Instagram

ÍR-ingar eru enn með fullt hús stiga á toppi 1. deildar kvenna í handbolta, Grill 66 deildarinnar, eftir risasigur á grönnum sínum í Fylki í Árbænum í kvöld, 41:27.

ÍR er með fjögurra stiga forskot á næstu þrjú lið sem eru Fram U, Valur U og Afturelding.

Karen Tinna Demian skoraði 10 mörk fyrir ÍR í kvöld og Sara Kristjánsdóttir 9. Hjá heimakonum voru Selma María Jónsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir markahæstar með 6 mörk hvor. ÍR var 22:12 yfir í hálfleik.

Afturelding vann Stjörnuna U í Garðabæ, 35:18, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 15:7. Þóra María Sigurjónsdóttir var markahæst Aftureldingar með átta mörk og Kiyo Inage skoraði sjö. Freydís Jara Þórsdóttir var markahæst Stjörnunnar með sex mörk. Stjarnan er áfram stigalaus á botni deildarinnar.

Grótta vann fimm marka sigur á Víkingi, 23:18, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Grótta hefur því unnið þrjá af fyrstu sjö leikjum sínum og er með sex stig en Víkingur er með fjögur stig. Tinna Valgerður Gísladóttir og Arndís María Erlingsdóttir voru markahæstar Gróttukvenna með 5 mörk hvor en Rebekka Friðriksdóttir skoraði 7 marka Víkinga.

Loks vann HK U fimm marka sigur á Fjölni, 28:23, eftir að staðan var 17:12 í hálfleik. Markaskorunin dreifðist vel hjá HK-ingum en þær Berglind Þorsteinsdóttir, Elva Arinbjarnar og Karen Kristinsdóttir voru markahæstar með fimm mörk hver. Elísa Ósk Viðarsdóttir og Ólöf Ásta Arnþórsdóttir drógu vagninn fyrir Fjölni og skoruðu sjö mörk hvor.

HK U er með sex stig en Fjölniskonur hafa unnið einn af fyrstu átta leikjum sínum og eru í næstneðsta sæti með tvö stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert