FH marði ÍBV í háspennuleik

Birgir Már Birgisson sækir að marki ÍBV.
Birgir Már Birgisson sækir að marki ÍBV. mbl.is/Árni Sæberg

Ásbjörn Friðriksson átti sannkallaðan stórleik fyrir FH og skoraði 12 mörk þegar liðið vann dramatískan eins marks sigur gegn ÍBV í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld en leiknum lauk með 28:27-sigri Hafnfirðinga.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin en þá vöknuðu Eyjamenn. Eyjamenn komust í 8:5 eftir tæplega fimmtán mínútna leik en ÍBV spilaði frábæran varnarleik, framan af, í fyrri hálfleik. Hafnfirðingar gerðu áhlaup og minnkuðu muninn niður í 10:9 en ÍBV endaði hins vegar fyrri hálfleik betur og var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12.

Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og voru fimm mörkum yfir þegar tæpar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þá hrökk Birkir Fannar Bragason í marki Hafnfirðinga í gang og hann átti nokkrar lykilvörslur á lokakaflanum. Ásbjörn hélt áfram að skora fyrir FH á meðan Eyjamönnum gekk illa að skora og Birkir Fannar tryggði FH sigur þegar hann varði frá Kára Kristjáni Kristjánssyni, leikmanni ÍBV, í dauðafæri á línunni þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson kom næstur í liði FH með sjö mörk á eftir Ásbirni en hjá ÍBV voru þeir Theodór Sigurbjörnsson og Fannar Þór Friðgeirsson atkvæðamestir með 5 mörk hvor. FH er komið í annað sæti deildarinnar í 12 stig, líkt og Selfoss en Selfyssingar eiga leik til góða. ÍBV er komið í níunda sæti deildarinnar en liðið er með sex stig líkt og ÍR, Grótta og KA.

FH 28:27 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með eins marks sigri FH. Eyjamenn algjörir klaufar að tapa þessum leik svona á síðustu mínútunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert