„Það er stundum mótvindur í þessu“

Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Sverre Andreas Jakobsson gat séð ljósu punktana hjá sínum mönnum í Akureyri þrátt fyrir 9 marka tap gegn Val á heimavelli í 8. umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. Heimamenn voru aðeins tveimur mörkum undir í hálfleik og munaði þar mestu að Daníel Andrésson í marki Vals varði 12 skot í fyrri hálfleik en markverðir Akureyrar aðeins 6.

„Heilt yfir er ég mjög ánægður með fyrri hálfleikinn. Við fengum smá vörslu síðustu 10 mínúturnar í fyrri hálfleik og því var staðan í hálfleik ekkert áhyggjuefni fyrir mér. Með smá heppni hefðum við getað verið enn nær þeim í hálfleik“, sagði Sverre og bætti við: „Að sama skapi er seinni hálfleikurinn mikil vonbrigði. Kannski aðallega það að mér finnst við gefast upp of snemma. Eins og trúin á verkefnið hafi horfið eftir 10 mínútur í seinni hálfleik. Þegar við fórum í ákveðnar aðgerðir til þess að reyna að snúa þessu við þá fylgir hugurinn ekki verkefninu og þá er það aldrei gott“, bætti Sverre við.

Valþór Atli Guðrúnarson, leikstjórnandi Akureyri Handboltafélags, meiddist í lok fyrri hálfleiks og spilaði ekkert í þeim síðari: „Já, hann var búinn að stýra þessu vel og það var yfirvegun í sókninni og var bæting frá síðustu tveimur leikjum okkar með því. Hann er væntanlega frá í einhvern tíma núna. En það er bara áfram gakk og næsti leikur. Það er stundum mótvindur í þessu en þá er bara að mæta honum að fullum krafti,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyri Handboltafélags, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert