„Við slípumst betur saman með hverjum leiknum“

Anton Rúnarsson var sterkur í dag.
Anton Rúnarsson var sterkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Anton Rúnarsson fór fyrir Val í 31:22-sigri á Akureyri í Olísdeild karla í handbolta í íþróttahöllinni á Akureyri. Anton skoraði 6 mörk í leiknum og átti sæg af stoðsendingum. Hann ræddi við blaðamann mbl.is: „Það er alltaf erfitt að koma norður og við vissum það fyrirfram að við værum að fara í hörku leik. Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur af okkar hálfu, þrátt fyrir að við værum með einhverja forystu. Við hinsvegar sýndum gæðamun í seinni hálfleik og gerðum þetta að krafti og það skóp sigurinn“, sagði Anton.

Daníel Freyr Andrésson varði 21 skot í marki Vals í dag og var stórkostlegur á köflum: „Danni var frábær í síðasta leik og í dag og er búinn að vera gríðarlega vaxandi. Svo er Einar [innsk. blm. Einar Baldvin Baldvinsson, hinn markvörður Vals] frábær í að bakka hann upp og menn eru að komast í gott stand og þetta lítur töluvert betur út en fyrir tveimur vikum“, sagði Anton.

Umfjöllun um deildina er mikil og Valsmenn fá sinn skerf af henni, enda með lið sem getur náð langt og töluverð pressa oft og tíðum á Hlíðarendapiltum. Hvað finnst Antoni um það? „Við vissum alveg að þetta væri ekkert auðvelt og það komu þarna tveir tapleikir í röð og við þurftum aðeins að setjast niður og fara yfir málin. Við settumst bara aðeins niður og ræddum málin eftir það og mér finnst við vera að svara þessu núna. Þetta er langt mót og það er nóg eftir og við slípumst bara betur saman með hverjum leiknum“, sagði Anton að lokum áður en hann dreif sig út í rútu, en Valsmenn komu keyrandi úr höfuðborginni og því nokkurra tíma bílferð sem bíður þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert