Stjarnan vann botnslaginn gegn Selfossi

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var öflug í liði Garðbæinga og skoraði …
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var öflug í liði Garðbæinga og skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Einarsdóttir átti frábæran leik í marki Stjörnunnar og varði 14 skot, þar af eitt vítakast, þegar liðið vann 25:21 gegn Selfossi í 9. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld. Jafnfræði var með liðunum í upphafi leiks en Garðbæingar náðu fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn og var staðan í hálfleik 14:10, Stjörnunni í vil.

Selfyssingum tókst að minnka muninn niður í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks og var staðan 19:18, Stjörnunni í vil, þegar tæpar tólf mínútur voru til leiksloka. Þá setti Stjarnan aftur í gír og vann að lokum öruggan fjögurra marka sigur en sóknarleikur Selfyssinga var afar slakur undir restina.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Stjörnunnar með 7 mörk, þar af 3 af vítalínunni og Kristín Guðmundsdóttir skoraði 6 mörk. Hjá Selfyssingum var Kristrún Steinþórsdóttir atkvæðamest með 6 mörk og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði fjögur mörk. Stjarnan er komin í sjöunda sæti deildarinnar í 5 stig en Selfoss er á botninum með 3 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert