Torsóttur sigur hjá Kiel

Alfreð Gíslason fagnaði sigri með Kiel í kvöld.
Alfreð Gíslason fagnaði sigri með Kiel í kvöld. Ljósmynd/Carsten Rehder

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í THW Kiel náðu torsóttum sigri í kvöld þegar þeir sóttu Arnór Þór Gunnarsson og samherja hans í Bergischer HC heim í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Það var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins sem Kiel komst fram úr og vann með fjögurra marka mun, 27:23, og treysti þar með stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig að loknum 14 leikjum.

Arnór og félagar, sem hafa leikið afar vel á leiktíðinni, veittu stórliði Kiel harða mótspyrnu frá upphafi í kvöld en leikið var í ISS-íþróttahöllinni í Düsseldorf. Jafnt var í hálfleik, 11:11, og þegar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan enn jöfn, 20:20. Lokasprettinn á leikmenn Kiel.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahópi Kiel en kom lítið við sögu í leiknum. Arnór Þór skoraði tvö mörk í þremur tilraunum fyrir Bergischer sem er í sjöunda sæti deildarinnar.

Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin sem tapaði á heimavelli fyrir Melsungen, 26:24. Melsungen var sterkara liðið í leiknum og var m.a. með fjögurra marka forskot í hálfleik, 15:11.

Magdeburg situr í öðru sæti þýsku deildarinnar eftir sigur á Lemgo á heimavelli, 29:23. Nýliðar Bietigheim unnu óvæntan sigur á Hannover-Burgdorf, 27:26, á heimavelli Burgdorf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert