Frábært að fara með tvö stig héðan

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er frábært að fara með tvö stig héðan. Þetta var fjórði leikurinn á tólf dögum og það er mikið álag á okkur svo ég er ánægður með strákana að landa þessum sigri," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir 33:31-sigur á Aftureldingu í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

Haukar lögðu gruninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik og í kjölfarið fínni byrjun á seinni hálfleik. 

„Fyrstu 45 mínúturnar voru góðar en svo slökuðum við á síðasta korterið. Við vissum að það kæmi áhlaup. Við stóðumst það og ég er ánægður með að klára þetta.

„Heildarbragurinn fyrri hluta hálfleikanna var góður. Við duttum aðeins niður seinni hluta hálfleikanna, kannski út af þreytu. Þetta var leikur þar sem við þurftum að nýta breiddina og ég er ánægður með hvernig menn stigu upp," sagði Gunnar. 

mbl.is