Mættum eins og við hefðum enga trú

Árni Bragi Eyjólfsson, Aftureldingu.
Árni Bragi Eyjólfsson, Aftureldingu. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Frammistaðan var heilt yfir ekki nógu góð. Við mætum í þennan leik eins og við höfum enga trú á að við séum að fara að vinna hann og það verður okkur að falli," sagði svekktur Árni Bragi Eyjólfsson, leikmaður Aftureldingar, eftir 31:33-tap fyrir Haukum á heimavelli í Olísdeildinni í handbolta. 

Árni var sérstaklega svekktur með byrjun Aftureldingar í kvöld, en Haukar komust snemma í 7:3. 

„Það tók okkur 30 mínútur að byrja þennan leik. Við byrjuðum seinni hálfleikinn af krafti en þeir bjuggu til smá mun þar sem við vorum ekki að hitta. Um leið og við fórum að hitta náðum við þessu niður. Ef við hefðum byrjað þennan leik hefðum við unnið hann.

Við missum Bödda, sem er varnarmaður númer 1, en það á ekki að vera afsökun. Við eigum að geta spilað vörn án hans, en það tók tíma að finna taktinn í hans fjarveru. Ofan á það hittum við illa og það er ekki hægt á móti liði eins og Haukum."

En hvað var að klikka í sóknunum í upphafi leiks? 

„Við fengum eitt færi í hornunum allan fyrri hálfleikinn svo við vorum mikið á miðjunni. Það gerir það að verkum að við fáum vond skot fyrir utan sem markmenn eiga auðvelt með að lesa. Við vorum svo að klikka úr mjög góðum færum líka," sagði Árni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert