Kristianstad tapaði stórt

Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad í dag.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Andrés Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson áttu fínan leik fyrir Kristianstad þegar liðið tapaði með níu mörkum fyrir ungverska liðinu Veszprém á útivelli í Meistaradeildinni í handknattleik í dag en leiknum lauk með 36:27-sigri Veszprém.

Staðan í hálfleik 20:14, Veszprém í vil, en Ungverjarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og lögðu þannig grunninn að sterkum sigri. Ólafur og Arnar Freyr skoruðu báðir fjögur mörk fyrir Kristianstad og  Teitur Örn Einarsson eitt mark. Valter Chrintz var markahæstur í liði Kristinstad með átta mörk.

Kristianstad er í áttunda og neðsta sæti A-riðils með 3 stig eftir fyrstu sjö leiki sína en liðið hefur tapað fimm leikjum í Meistaradeildinni á þessu tímabili, gert eitt jafntefli og unnið einn leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert