„Vitum að þetta eru óttalegir durgar“

Árni Steinn Steinþórsson og félagar ætla sér að komast í ...
Árni Steinn Steinþórsson og félagar ætla sér að komast í sjálfa riðlakeppni EHF-bikarsins þar sem topplið úr Evrópu gætu beðið þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það yrði rosalega stórt fyrir íslenska boltann, mikið styrkleikamerki fyrir deildina hérna heima, ef við kæmumst í riðlakeppnina. Svo yrði það líka rosalega flott reynsla fyrir Selfoss að spila í þessari keppni með fullt af toppliðum. Það yrði hrikalega gaman og við ætlum að gera allt sem við getum til að ná þessu takmarki.“

Þetta segir Árni Steinn Steinþórsson í Morgunblaðinu í dag en hann og félagar í liði Selfoss mæta Azoty-Pulawy í Póllandi í dag í fyrri leik liðanna í 3. og síðustu umferð undankeppni EHF-bikarsins í handbolta. Liðin mætast svo á Selfossi eftir viku og sigurliðið í einvíginu kemst í riðlakeppni EHF-bikarsins, þar sem stórlið á borð við Kiel og Füchse Berlín gætu beðið Selfyssinga.

Azoty-Pulawy varð í 3. sæti pólsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og lék í riðlakeppni EHF-bikarsins. „Við vitum að þetta eru óttalegir durgar, töluvert stærri og þyngri leikmenn en til dæmis í slóvenska liðinu sem við mættum síðast. Þetta eru sleggjur, en að sama skapi vonandi aðeins hægari og ekki eins teknískir. En þetta er svo sannarlega hörkulið, með landsliðsmenn frá Bosníu, Rússa og Úkraínumenn í sínum röðum. Þetta er alvöruaustantjaldslið,“ segir Árni Steinn.

Sjá samtal við Árna Stein í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »