Íslendingaliðin í vænlegri stöðu

Vignir Svavarsson skoraði eitt mark fyrir Holstebro í EHF-bikarnum í …
Vignir Svavarsson skoraði eitt mark fyrir Holstebro í EHF-bikarnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vignir Svavarsson skoraði eitt mark úr einu skoti þegar lið hans Holstebro gerði 25:25-jafntefli við franska liðið PAUC Aix í fyrri leik liðanna í Frakklandi í 3. umferð EHF-bikarsins í handknattleik í dag. Franska liðið byrjaði leikinn betur en staðan í hálfleik var 13:12, PAUC Aix í vil.

Holstebro byrjaði seinni hálfleikinn mun betur og var munurinn á liðunum þrjú mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Frökkunum tókst að jafna metin þegar mínúta var til leiksloka og Holstebro mistókst að skora í lokasókn sinni og niðurstaðan því jafntefli. Holstebro er því í þægilegri stöðu fyrir seinni leik liðanna sem fer fram eftir viku í Danmörku.

Þá unnu Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel ellefu marka sigur gegn Drammen fyrr í dag í Þýskalandi en leiknum lauk með 34:23-sigri Kiel. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað hjá Kiel í leiknum og Óskar Ólafsson lék ekki með Drammen í dag. Seinni leikur liðanna fer fram eftir viku í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert