Sannfærandi ÍR sigur

Sveinn Andri Sveinsson sækir að marki Gróttu í Austurbergi í ...
Sveinn Andri Sveinsson sækir að marki Gróttu í Austurbergi í kvöld. mbl.is/Hari

ÍR vann sannfærandi sigur á Gróttu, 26:21, í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í níundu umferð deildarinnar í íþróttahúsinu í Austurbergi. ÍR-ingar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9.  ÍR er þar með með átta stig eins og Stjarnan í sjötta til sjöunda sæti. Grótta situr í áttunda sæti með sex stig og verður að leika mun betur í næstu leikjum en hún gerði í kvöld til þess að eiga möguleika á fleiri stigum.

Grótta hóf leikinn betur og hafði frumkvæðið við að skora framan af fyrri hálfleik. Sóknarleikur ÍR-inga var fljótfærnislegur og illa leikinn á þeim tíma. Gróttumenn léku mjög upp á línumann sinn Svein Jose Rivera sem skoraði fimm mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins vann auk þess eitt vítakast. Jóhann Reynir Gunnlaugsson fóðraði félaga sinn á sendingum.  Þegar á leið settu ÍR-ingar undir lekann. Í framhaldinu fengu þeir ódýrari mörk eftir hraðaupphlaup. Meiri ró komst yfir sóknarleik liðsins þar sem Arnar Freyr Guðmundsson fór mikinn, hélt uppteknum hætti frá viðureigninni við Fram um síðustu helgi.

Markvarslan var hinsvegar það sem skildi liðin fyrst og fremst að í fyrri hálfleik. Stephen Nielsen fór á kostum í marki ÍR og varð 12 skot í hálfleiknum, flest úr opnum færum. Stephen las hornamenn Gróttu eins og opna bók. Þeim virtist fyrirmunað að koma boltanum frá honum. Meðan voru markverðir Gróttu, Hreiðar Levý Guðmundsson  framan af og Sverrir Andrésson í síðari hlutanum, daufir í dálkinn og kom varla við boltann nema þá til þess að ná í hann úr marknetinu.

Gróttumenn virutst algjörlega missa móðinn í snemma í síðari hálfleik. Sóknarleikur þeirra var slakur gegn baráttuglöðu ÍR-ingum sem voru með fimm marka forskot, 16:11, eftir ríflega tíu mínútur. Þrátt fyrir að Einar Jónsson, þjálfari Gróttu, messaði hressilega yfir sínum mönnum kom allt fyrir ekki. ÍR-ingar voru með leikinn í sínum höndum.  Gróttumenn voru aldrei líklegir til þess að ógna fjögurra til fimm marka forskoti heimamanna.

Sigur ÍR-ingar var sannfærandi og öruggur. Liðið átti ágæta spretti í leiknum og varnarleikurinn var góður, að minnsta kosti gegn slökum sóknarleik Gróttu.

Gróttu-liðið var slakt. Það byrjaði leikinn nokkuð vel en það dugði skammt. Ljóst að Gróttumenn verða heldur betur að taka sig saman í andlitinu ef ekki á illa að fara hjá þeim.

Arnar Freyr Guðmundsson og Sturla Ásgeirsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir ÍR og voru markahæstir. Stephen Nielsen varði 20 skot í markinu.

Sveinn Jose Rivera var markahæstur hjá Gróttu með átta mörk. Magnús Öder Einarsson skoraði sjö mörk.

ÍR 26:21 Grótta opna loka
60. mín. Leik lokið - öruggur sigur ÍR-liðsins á slöku liði Gróttu.
mbl.is