Þú uppskerð eins og þú sáir

Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki Stjörnunnar í Framhúsinu í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki Stjörnunnar í Framhúsinu í kvöld. mbl.is/Hari

„Við vorum með leikinn í hendi okkar allan tímann og klúðrum honum svo illilega,“ sagði hundsvekktur Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir að hafa horft á lið sitt kasta góðri stöðu frá sér í 24:24-jafntefli gegn Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handknattleik í kvöld.

Framarar voru mest sjö mörkum yfir í Framhúsinu í kvöld og virtust ekki eiga í miklum vandræðum með gestina, sem sitja í næstneðsta sæti deildarinnar, þar til á lokamínútunum. Meistararnir voru þar að auki með boltann á lokamínútunni en köstuðu honum klaufalega frá sér áður en Hanna Guðrún Stefánsdóttir tryggði Stjörnunni stig með síðasta kasti leiksins.

„Við eigum fjórar sendingar eftir og við köstum boltanum frá okkur og gefum þeim tækifæri til að jafna. Með skynsemi hefðum við unnið þennan leik,“ sagði Stefán og benti á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Framarar hafa verið klaufar á tímabilinu.

„Þetta er búið að vera svona í vetur, við spilum ekki heilan leik vel. Við höfum oft náð góðri forystu og tapað henni svo niður eins og núna. Við þurfum bara að spila betur, þetta er ekki flókið. Taflan lýgur ekki og Framliðið hefur ekki verið að spila vel á þessu tímabili, þú uppskerð eins og þú sáir.“

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert