Jafntefli á Hlíðarenda eftir hádramatík

Valsarinn Anton Rúnarsson sækir að FH-ingunum Ásbirni Friðrikssyni og Bjarna ...
Valsarinn Anton Rúnarsson sækir að FH-ingunum Ásbirni Friðrikssyni og Bjarna Ófeigi Valdimarssyni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur og FH skildu jöfn, 28:28, er þau mættust í 9. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Anton Rúnarsson gat skorað sigurmarkið með vítakasti eftir að leiktíminn rann út en hann skaut fram hjá. 

Fyrri hálfleikur var einn sá jafnasti sem undirritaður hefur séð og var afar viðeigandi að staðan eftir hann var 14:14. Aldrei varð munurinn meira en eitt mark og því bókstaflega jafnt á öllum tölum í hálfleiknum.

Daníel Freyr Andrésson í marki Vals var helsta ástæða þess að Valsmenn voru í jöfnum leik framan af og varði hann afar vel, en lítið var skorað á fyrstu mínútunum. Eftir því sem leið á hálfleikinn fundu liðin oftar leiðina fram hjá vörnum og markvörðum. Ásbjörn Friðriksson skoraði fimm mörk fyrir FH í hálfleiknum og Magnús Óli Magnússon gerði sex mörk fyrir Val.

Daníel varði tólf skot í hálfleiknum, en það dró aðeins af honum eftir því sem leið á hálfleikinn. Birkir Fannar Bragason í marki FH tók þá við og varði hann alls tíu skot í fyrri hálfleik, en eins og áður segir var staðan jöfn, 14:14, í leikhléi.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu fjögur mark hans og komust í 18:14 og í kjölfarið komust þeir í fimm marka forystu, 22:17. FH skoraði þá fjögur mörk í röð og minnkaði muninn í 22:21. Valsmenn skoruðu hins vegar næstu tvö mörk og komust í 24:21. 

FH gafst hins vegar ekki upp og minnkaði muninn í 25:24 þegar sex mínútur voru til leiksloka og voru lokamínúturnar æsispennandi. Staðan var 28:28 þegar leiktíminn rann út en Ásbjörn Friðriksson braut illa á Róberti Aroni Hostert um leið og lokaflautið gall og fékk rautt spjald og Valsmenn fengu víti. Eins og áður segir tókst Antoni Rúnarssyni ekki að skora úr vítinu. 

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Valur 28:28 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Þvílík og önnur eins dramatík!
mbl.is