Lazarov framlengir fram á fimmtugsaldur

Guðjón Valur Sigurðsson og Kiril Lazarov spiluðu saman hjá Barcelona.
Guðjón Valur Sigurðsson og Kiril Lazarov spiluðu saman hjá Barcelona. Ljósmynd/Robert Spasovski

Hinn síungi Kiril Lazarov, stórskytta franska handknattleiksliðsins Nantes og landsliðs Makedóníu, hefur framlengt samning sinn við félagið til tveggja ára. Hann verður því 41 árs þegar samningur hans rennur út.

Lazarov er goðsögn í handknattleiksheiminum eftir afar farsælan feril, en meðal liða sem hann hefur spilað með eru RK Zagreb, Veszprém, Ciudad Real, Atlético Madrid, Barcelona og nú Nantes. Samkvæmt tölfræði sem heimasíða Nantes hefur tekið saman á hann að baki 43 titla í Makedóníu, Króatíu, Ungverjalandi, Spáni og í Frakklandi, einn Meistaradeildartitil og hefur þrívegis til viðbótar leikið þar til úrslita.

Lazarov var valinn besta hægri skyttan í Meistaradeildinni þrjú ár í röð, 2014-2016, og er markahæsti leikmaður keppninnar frá upphafi. Þá er hann einnig einn markahæsti landsliðsmaður sögunnar og á marka­met­in á heims- og Evr­ópu­meist­ara­mót­um landsliða, svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert