Ár síðan KA tapaði fyrir ÍBV U

Stefán Árnason var hæstánægður í kvöld.
Stefán Árnason var hæstánægður í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Stefán Árnason, þjálfari KA, var ótrúlega ánægður með sigur sinna manna á ÍBV úti í Vestmannaeyjum, en liðin áttust við í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Leiknum lauk 30:32 og var sigurinn verðskuldaður en gestirnir léku heilt yfir mun betur.

„Við erum hrikalega ánægðir að koma á svona erfiðan heimavöll og spila hrikalega góðan leik. Við erum fyrst og fremst ánægðir með að allt sem við vorum að leggja upp var að virka, þetta er líklega okkar besti leikur sóknarlega. Við útfærðum sóknarleikinn frábærlega á móti 6-0, 5-1 og 4-2, ég er hrikalega ánægður með hugarfarið og hve aggresívir við vorum, við sóttum alltaf á markið og vorum fljótir að aðlagast. Við vorum skynsamir og klókir í dag, það tökum við út úr þessum leik,“ sagði Stefán en það eru líklega fáir sem fylgjast jafn mikið með handbolta og Stefán og hefur hann þá séð Eyjamenn éta upp fimm marka forskot á engum tíma, var hann ekkert smeykur um að sú saga væri að endurtaka sig undir lok leiksins?

„Ég var kannski ekki hræddur en maður veit hvað býr í þessu Eyjaliði. Þeir hafa þennan möguleika að geta sprengt upp leik bæði í 4-2 og taka svo maður á mann vörn. Þetta er lið sem er þekkt fyrir það í gegnum tíðina að stela miklu af boltum, á þeirra heimavelli eru þeir gífurlega hættulegir. Ég bjóst við því að þeir ætluðu að sprengja upp leikinn og þeir ná því, við erum manni færri og tveimur færri á þessum tíma. Ég var ánægður með það að þegar þeir minnka í eitt tökum við tvær góðar sóknir í röð í lokin og fáum tvö mjög góð færi. Þegar mest á reyndi fundum við mjög góðar lausnir.“

Ár síðan KA tapaði fyrir ÍBV U

Einar Birgir Stefánsson, óþekktur leikmaður KA, átti alveg hreint magnaðan leik í dag þar sem hann skoraði úr öllum sínum sjö skotum og fiskaði þar að auki þrjú vítaköst. Þennan leikmann þekkja líklega fæstir en hann hafði skorað tvö mörk í átta fyrstu leikjum deildarinnar.

„Einar Birgir var frábær í leiknum, ég er sammála því, þetta er strákur sem hefur æft hrikalega vel frá því að síðasta tímabil endaði. Við höfum ætlað honum stórt hlutverk og þetta er stór og öflugur strákur sem getur spilað vörn og sókn, við höfum verið með Daníel Matthíasson líka sem er meiddur í dag, Einar fékk tækifærið og nýtti það, hann mætti ekki til að vera með heldur nýtti hann tækifærið vel. Við erum gífurlega ánægðir með hans leik,“ sagði Stefán en hann tók þó sérstaklega fram að þetta var sigur liðsheildarinnar og vildi þakka því sigurinn.

Nú er eitt og hálft ár síðan KA varð til á ný og talar Stefán örlítið um það.

„Þá var fullt af mönnum innan félagsins sem vildu kveikja í þessu, þeir vissu að það væru ungir KA-menn sem biðu eftir tækifærinu, ég held að það sé nánast upp á dag eitt ár síðan við komum hingað til Eyja og töpuðum fyrir ÍBV-U í Grill66-deildinni. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og okkar leikmenn eru að leggja hrikalega mikið í þetta, þetta eru strákar sem bæta sig viku fyrir viku. Við Heimir erum stundum grimmir við þá og setjum miklar kröfur á þá en þeir mæta alltaf jákvæðir og hafa skapað góða liðsheild, sem skilaði okkur sigri í dag.“

Hefðu viljað fá betri úrslit í nokkrum leikjum

KA-menn hafa unnið glæsta sigra á tímabilinu, í annarri umferð vann liðið risastóran sigur á Haukum og nú í kvöld vann liðið sigur á ÍBV, liðum sem spáð var góðu gengi á leiktíðinni. Það hlýtur þó að svíða að hafa ekki náð að standa sig betur í leikjum þar sem liðið er að spila við lið sem fyrir fram voru talin jafningjar KA-manna.

„Að sjálfsögðu hefðum við einhvers staðar viljað fá betri úrslit, ég held að þetta séu fjórir leikir þar sem við erum yfir en náum ekki að vinna. Það er bara svona, við erum á fyrsta ári í Olís-deildinni, við erum með nýja leikmenn í bland við þá sem voru með okkur í fyrra, þetta tekur tíma. Það sem við erum ánægðir með er vinnuframlag strákanna viku eftir viku, það er rosalega mikið hungur og jákvæðni í þessu.“

Að lokum spurði ég Stefán út í þá umræðu sem hefur verið undanfarið t.a.m. í Podcast-þættinum Handkastið þar sem KA-mönnum var spáð stórtapi í Eyjum. Stefán sagðist ekki hafa nýtt það sem „mótiveringu“ fyrir leikmenn sína en segir þáttinn vera virkilega góða viðbót fyrir aðdáendur handboltans.

„Nei, við höfum ekki minnst á það, ég er ekki mikið að fylgjast með umfjölluninni sem er í gangi, við erum bara að hugsa um okkur. Þessir þættir eru mjög flottir fyrir þá sem eru að fylgjast með handboltanum og gefa þessu skemmtilegan lit, þetta er meira fyrir áhorfendur, við erum meira í því að horfa á leikina og greinum þá. Við reynum að bæta það sem er lélegt og vinnum í hinu, reynum að bæta leikmennina okkar og þurfum ekkert bensín annars staðar frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert