KA sótti sigur til Eyja

Tarik Kasumovic skýtur að marki ÍBV í kvöld.
Tarik Kasumovic skýtur að marki ÍBV í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KA-menn sóttu tvö stig á heimavöll Íslands-, bikar- og deildarmeistara ÍBV í kvöld þegar liðið vann tveggja marka sigur, 32:30, í Olísdeild karla í handbolta. Sigurinn var verðskuldaður en KA-menn spiluðu heilt yfir miklu betur en Eyjamenn fyrir utan 10 mínútna kafla í seinni hálfleik.

Staðan í hálfleik var 17:11 en KA-menn leiddu út allan leikinn, með öguðum sóknarleik tókst þeim að halda góðu forskoti þangað til Eyjamenn spiluðu maður á mann vörn gegn þeim á síðustu mínútunum.

Tarik Kasumovic átti flottan leik og skoraði sjö mörk en fékk einnig rautt spjald þegar nokkrar mínútur voru eftir fyrir olnbogaskot sem hafnaði í Elliða Snæ Viðarssyni, það var vissulega algjört óviljaverk. Maður leiksins verður þó að vera Einar Birgir Stefánsson sem var algjörlega magnaður í leiknum, með sjö mörk úr sjö skotum og þrjú fiskuð víti. Strákur sem var með tvö mörk í átta leikjum fyrir leikinn í dag.

Eyjamenn hafa flestir átt betri leik og það var ekki fyrr en í seinni hálfleik og það á síðustu mínútum leiksins sem eitthvert líf kviknaði fyrir alvöru í liðinu. Markvarslan var ekki góð og sóknarleikurinn oft og tíðum mjög slakur. Illa tókst að opna hornið fyrir Theodóri Sigurbjörnssyni í fyrri hálfleik en hann lék á als oddi í síðari hálfleik og skoraði meðal annars þrjú sirkusmörk.

Sigurinn setur KA-menn í 8. sæti deildarinnar en Eyjamenn eru í því tíunda.

ÍBV 30:32 KA opna loka
60. mín. Dagur Gautason (KA) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert