Selfyssingar sigu fram úr

Atli Ævar Ingólfsson, línumaður Selfyssinga, skoraði 5 mörk í kvöld.
Atli Ævar Ingólfsson, línumaður Selfyssinga, skoraði 5 mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss endurheimti toppsætið í Olísdeild karla í handbolta með öruggum sigri á Fram, 28:23, í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Selfyssingar voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn en Framarar voru ekki að gefa þeim neitt og tóku vel á þeim vínrauðu í vörninni. Selfoss náði mest fjögurra marka forskoti en Fram minnkaði muninn í tvö mörk áður en hálfleiksflautan gall. Aron Gauti Óskarsson lokaði fyrri hálfleiknum með hnitmiðuðu skoti í gegnum varnarvegg Selfyssinga eftir að leiktíminn var liðinn, 13:11 í hálfleik.

Pawel Kiepulski, markvörður Selfoss, var sterkur í fyrri hálfleik en hann hóf leikinn á því að verja tvö vítaköst og var kominn með 9/2 varin skot í leikhléi. Hjá gestunum var hins vegar lítið að frétta hvað markvörsluna varðaði en bæði Lárus Helgi Ólafsson og Viktor Gísli Hallgrímsson reyndu sig milli stanganna.

Hergeir Grímsson var Selfyssingum dýrmætur í fyrri hálfleik bæði í sókn og vörn en hjá Frömurum lét Þorgrímur Smári Ólafsson helst að sér kveða.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Selfyssingar voru áfram sterkari en Framliðið var aldrei langt undan. Munurinn var lengi þrjú mörk en Fram náði að minnka muninn í eitt mark, 19:18, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Þá stigu Selfyssingar aftur á bensíngjöfina og keyrðu yfir gestina á lokakaflanum.

Haukur Þrastarson átti frábæran leik fyrir Selfoss, skoraði 6 mörk og átti 12 stoðsendingar. Þannig átti hann hlut í 18 af 28 mörkum Selfyssinga.

Árni Steinn Steinþórsson var markahæstur Selfyssinga með 7/3 mörk og þeir Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson skoruðu báðir 6. Pawel Kiepulski varði 12/2 skot þegar upp var staðið. Hjá Fram Var Þorgrímur Smári Ólafsson markahæstur með 6 mörk og Þorgeir Bjarki Davíðsson skoraði 5. Lárus Helgi Ólafsson varði 6 skot í marki Fram.

Selfoss er í toppsæti deildarinnar eftir níu umferðir en liðið hefur nú 14 stig eins og Haukar. Framarar þurfa hins vegar nauðsynlega að fara að safna stigum, hafa 5 stig í næst neðsta sæti í þéttum pakka liða.

Selfoss 28:23 Fram opna loka
60. mín. Andri Heimir Friðriksson (Fram) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert