Hefur gaman af því að láta finna fyrir sér

Steinunn Björnsdóttir.
Steinunn Björnsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrirfram átti ég ekki von á að vera í þessum sporum um mitt mótið,“ segir Steinunn Björnsdóttir sem að mati Morgunblaðsins var besti leikmaður fyrri hluta Olís-deildar kvenna í handknattleik.

Steinunn hefur leikið níu af tíu leikjum Fram til þessa í deildinni og farið á kostum. Hún hefur bundið saman vörn liðsins, farið mikinn í sóknarleiknum og skorað 54 mörk. Það sem meira er þá rifbeinsbrotnaði Steinunn í æfingaleik í ágúst og segist fyrir vikið ekki hafa getað beitt sér fullkomlega.

„Stebbi þjálfari [Stefán Arnarson] sagði við mig að hann ætti mig inni. Hann er þekktur fyrir að gera ekki of mikið úr leikmönnum sínum,“ sagði Steinunn létt í bragði þegar slegið var á þráðinn til hennar í gær.

Steinunn er nýbyrjuð að vinna á ný hjá Creditinfo að loknu fæðingarorlofi en hún fæddi sitt fyrsta barn fyrir 11 mánuðum. Hún sló ekki slöku við og æfði m.a. daginn áður en dóttirin kom í heiminn og tók upp þráðinn fljótlega eftir áramótin og lék m.a. með Fram í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í vor og var í stóru hlutverki þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð.

„Ég átti mjög gott tímabil veturinn áður en ég varð ólétt en reiknaði ekki með að koma með trompi til baka þótt ég reyndi að halda mér í formi eftir föngum. Meðgangan og fæðingin gekk svo vel að ég missti lítið úr og gat fljótlega farið að æfa að krafti aftur. Þess utan þá eru nokkrar bestu vinkonur mínar í Fram-liðinu. Félagsskapurinn er mikilvægur,“ sagði Steinunn sem er 27 ára gömul og viðskiptafræðingur að mennt. Sambýlismaður hennar er Vilhjálmur Theodór Jónsson. Hann leikur körfuknattleik með Fjölni.

Steinunn viðurkennir að standa frammi fyrir breyttum veruleika en fyrir ári síðan áður en dóttirin kom í heiminn. „Ég þori samt varla viðurkenna að maður finni fyrir breytingunni vegna þess að þá verður manni hugsað til leikmanna eins og Kristínar Guðmundsdóttur og Hrafnhildar Óskar Skúladóttur sem eiga mörg börn og eru á fullu í boltanum. Kærasti minn æfir af krafti í körfunni svo ömmur og afar og frænkur hlaupa undir bagga. Einnig kemur stúlkan stundum með mér á æfingar. Hún þekkir Framheimilið vel þrátt fyrir ungan aldur,“ sagði Steinunn.

Sjá allt viðtalið við Steinunni og úrvalslið fyrri umferðar í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert