Hetjuleg barátta Selfyssinga dugði ekki til

Haukur Þrastarson og félagar mæta Azoty-Pulawy í kvöld.
Haukur Þrastarson og félagar mæta Azoty-Pulawy í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfyssingar eru úr leik í EHF-bikarnum í handknattleik þrátt fyrir 28:27 sigur gegn pólska liðinu Azoty-Pu­lawy í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Það varð snemma ljóst að það yrði við ramman reip að draga hjá Selfyssingum í kvöld enda Pólverjarnir með hávaxnara og líkamlega sterkara lið en Selfyssingar. Drengirnir úr mjólkurbænum buguðust þó ekki og varnarleikurinn var í hávegum hafður. 

Azoty-Pu­lawy komst tveimur mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Selfoss jafnaði fyrir leikhlé, 13:13. 

Selfoss byrjaði frábærlega í seinni hálfleik og náði fjögurra marka forskoti. Agaleysi í kjölfarið kom í veg fyrir að munurinn yrði meiri en tækifærið var til staðar. Pólverjarnir náðu að minnka muninn í eitt mark en þó Selfyssingar væru fallnir úr keppni ætluðu þeir sér að sigra í þessum leik og kláruðu því af krafti.

Elvar Örn Jónsson var öflugastur Selfyssinga í kvöld, skoraði 10 mörk og sendi 5 stoðsendingar. Það munaði hins vegar mikið um það að Haukur Þrastarson sat meiddur á bekknum allan tímann eftir högg í deildarleiknum gegn Fram í vikunni.

Árni Steinn Steinþórsson var sömuleiðis öflugur og skoraði 8/3 mörk og Pawel Kiepulski varði 10/1 skot í marki Selfoss. 

Hjá Azoty-Pu­lawy var hornamaðurinn Mateusz Seroka markahæstur með 7/1 mörk og Pawel Podsiadlo skoraði 6. Vadim Bogdanov varði 12 skot og stöðvaði Selfyssinga oft á mikilvægum augnablikum.

Selfoss 28:27 KS Azoty-Pulawy opna loka
60. mín. Mateusz Seroka (KS Azoty-Pulawy) skoraði mark Sóknin var að renna út í sandinn en Seroka kom til bjargar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert