„Við erum í Hallgrímskirkjunni“

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Fram. Einar Ingi Hrafnsson og Hrafn Ingvarsson …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Fram. Einar Ingi Hrafnsson og Hrafn Ingvarsson t.h. til varnar. Úr leik Fram og Aftureldingar á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gætum ekki vera meira í skýjunum, okkur fannst við skulda tvö til fjögur stig og að vinna Aftureldingu hér í dag, ég er í skýjunum bara!“ sagði kampakátur Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, eftir langþráðan 30:26-sigur á Aftureldingu í Olísdeildinni í handknattleik í kvöld.

Framarar voru búnir að tapa fjórum deildarleikjum í röð en léku prýðilega í kvöld til að binda enda á taphrinu sína. Lárus segir liðið vera á uppleið.

„Þeir eru með hrikalega flott lið og til alls líklegir í vetur og við getum verið ánægðir. Við áttum góðan leik á móti Selfossi þó tölurnar hafi ekki verið þannig, við erum bara að labba upp ákveðinn stiga. Við erum í Hallgrímskirkjunni, komnir á fjórðu, fimmtu hæð en ætlum að enda á áttundu eða níundu.“

Viktor Gísli Hallgrímsson hóf leikinn í marki Framarar og varði oft vel framan af leik og í síðari hálfleik tók Lárus við keflinu og hélt uppteknum hætti, varði mikilvæg skot sem hjálpuðu Fram að landa sigrinum.

„Já, það er bara þannig, ef stóru strákarnir fyrir framan okkur hjálpa að þá erum við að taka okkar bolta. Og þá er allt miklu auðveldara, sóknarleikurinn verður ekki jafn stirður og við byrjum að fá mörk úr seinni bylgjunni. Þá verður stemningin allt önnur, það er það sem skiptir öllu máli fyrir þetta Framlið og hefur gert undanfarin 5-6 ár.“

Framliðið hefur undanfarið átt það til að eiga afbragðsleiki inn á milli en það hefur vantað stöðugleikann í spilamennskuna og segir Helgi það næsta skref.

„Við þurfum að vinna í því sjálfir og finna þennan frábæra Fram anda sem var í fyrra. Við eigum rosalega erfitt prógram núna fyrir jól en við ætlum að taka fleiri stig.“

Lárus Helgi gekk til liðs við Fram fyrir tímabilið en …
Lárus Helgi gekk til liðs við Fram fyrir tímabilið en var þar áður hjá Aftureldingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert