Makedónía byrjaði með stórsigri

Frá landsleik Íslands og Makedóníu fyrir nokkrum árum.
Frá landsleik Íslands og Makedóníu fyrir nokkrum árum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landslið Makedóníu hóf undankeppni HM í handknattleik kvenna  á stórsigri á landsliði Aserbaídsjan, 41:22,  en bæði liði eru með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppninni sem leikin er í Skopje í Makedóníu. 

Skemmst er frá að segja að leikurinn var einstefna frá upphafi til enda af hálfu landsliðs Makedóníu. Munurinn var tíu mörk að loknum fyrri hálfleik, 18:8, og bilið á milli liðanna jókst jafnt og þétt í síðari hálfleik.

Landslið Aserbaídsjan virðist vera byrjandi í íþróttinni er marka má frammistöðu þess í dag. Liðið kom aðeins með 13 leikmenn til leiks í Skopje og þeir náðu sér aldrei á strik gegn líkamlega sterkum og hávöxnum liðsmönnum landsliðs Makedóníu.

Íslenska landsliðið mætir Tyrkjum klukkan 19 á eftir og landsliði Makedóníu klukkan 17 á morgun. Lokaleikurinn verður við Aserbaídsjan á sunnudagskvöld. Allir leikir íslenska liðsins verða í beinni textalýsingu á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert