Skellur í Skopje en vonin lifir

Arna Sif Pálsdóttir sækir að marki Makedóníu í kvöld.
Arna Sif Pálsdóttir sækir að marki Makedóníu í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Íslenska landsliðið tapaði með átta marka mun fyrir Makedóníu í uppgjöri efstu liðanna í fjórða riðli undankeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Skopje í dag, 29:21. Ef undan eru skildar fyrstu 10 mínútur leiksins þá voru leikmenn Makedóníu sterkari og voru með sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:10. Þær náðu mest 11 marka forskoti í síðari hálfleik.

Draumur íslenska liðsins um að komast í umspil fyrir HM í vor er þó langt í frá úr sögunni. Besta liðið sem hafnar í öðru sæti í riðlunum fjórum kemst áfram og þar skiptir heildarmarkatala miklu. Því gæti verið möguleiki á að krækja í sætið með stórum sigri á landsliði Aserbadsjan á morgun í lokaleiknum að því tilskildu að Makedónía vinni Tyrkland í lokaumferðinni. Vinni Tyrkir hins vegar Makedóníu og Ísland leggur lið Asera þá vinnur íslenska landsliðið riðilinn á innbyrðis markatölu liðanna þriggja nema þá að Tyrkir vinni Makedóníu með meira en 13 marka mun.

Fyrstu mínútur leiksins voru góðar af hálfu íslenska liðsins og það var yfir, 4:3, þegar um átta mínútur voru liðnar. Þá kom afar slæmur kafli þar sem ekki stóð steinn yfir steini í sókninni. Boltinn glataðist hvað eftir annað og makedónska liðið skoraði sex mörk í röð án þess að það íslenska fengi rönd við reist.

Eftir 20 mínútna leik var staðan 11:6. Þá kom góður íslenskur kafli í kjölfarið á að þær makedónsku misstu leikmann af velli og annan fljótlega á eftir í framhaldi af mistökum sem gerð voru eftir leikhlé þegar liðið mætti fullskipað til leiks en þá enn var rúm mínúta eftir af refsitímanum.  Íslenska liðið nýtti sér liðsmuninn afar vel og skoraði þrjú mörk í röð og minnkaði muninn í tvö mörk, 11:9. Eftir að Makedóníukonur náðu vopnum sínum á ný fór leikurinn fljótlega í sama farið. Reyndar náðu íslensku konurnar á stundum að leika sig í færi en þá strandaði ofar en ekki á að skotin rötuðu ekki á markið eða lentu á Draginu Petkovsku, markverði makedónska liðsins.

Það blés því ekki byrlega fyrir íslenska liðinu eftir fyrri hálfleikinn þegar heimaliðið var sex mörkum yfir, 16:10, og byrjaði í sókn í síðari hálfleik.

Fátt  gekk upp framan af síðari hálfleik og ljóst að íslenska liðinu tækist ekki að snúa við blaðinu eða klóra verulega í bakkann. Makedóníukonur drógu úr hraða leiksins og um tíma var hreinlega um göngubolta að ræða. Liðið lék sama kerfið hvað eftir annað þar sem hornamennirnir voru í aðalhlutverki. Þeir luku hverri sókninni á fætur annarri með marki Margt var reynt af hálfu íslenska liðsins en fæst gekk upp. Meðal annars var farið í vera með sjö menn í sókn en allt kom fyrir ekki. Sóknarleikurinn gekk illa og sendingar rötuðu ekki samherja á milli. Makedóníukonur héldu áfram að fá hraðaupphlaup og munurinn var orðin 11 mörk þegar verst lét fyrir íslenska liðinu, 26:15, þegar 11 mínútur voru til leiksloka.

Á allra síðustu mínútum leiksins tókst að lágmarka skaðann og sleppa með átta marka tap sem getur skipt máli þegar gert verður upp dæmið með besta liðið í öðru sæti í riðlunum en eitt lið úr öðru sæti í riðlinum fjórum kemst áfram í umspilið eins og áður er getið.

Arna Sif Pálsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar með fimm mörk hvor.

Síðasti leikur íslenska liðsins verður við Aserbadsjan á morgun og hefst kl. 19. Fylgst verður með honum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Ísland 21:29 Makedónía opna loka
60. mín. Leik lokið - slakur leikur íslenska liðsins í fyrri hálfleik varð því að falli. Eins var leikurinn ekki viðundandi í síðari hálfleik. Vantaði áræðni. Nú er að snúa bökum saman og vinna stóran sigur á Aserbadsjan og krækja í annað sæti riðilsins og komast sem besta lið í öðru sæti í umspilið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert