Ísland í HM-umspilið eftir 31 marks sigur

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Ester …
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Ester Óskarsdóttir, Helena Rut Örvarsdóttir og Martha Hermannsdóttir fagna eftir sigurinn á Tyrkjum á föstudag. Ljósmynd/Robert Spasovski

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tryggði sér sæti í umspili fyrir HM í handknattleik kvenna með mögnuðum 31 marks sigri á landsliði Aserbaídsjan í Skopje í kvöld, 49:18. Liðið þurfti á 27 marka sigri á halda og gerði gott betur og náði 19 marka forskoti strax í fyrri hálfleik. Svo sannarlega frábær árangur hjá íslenska landsliðinu.

Íslensku stúlkurnar slógu upp sannkallaðri flugeldasýningu gegn landsliði Aserbaídsjan. Það hélt einbeitingu frá upphafi til enda og jók jafnt og þétt við forskot sitt allan leikinn með einstaklega góðum leik þar sem allir leikmenn liðsins lögðust á árar í því erfiða verkefni sem fram undan var þegar flautað var til leiksloka.

Ísland fer þar með áfram með besta árangur liða sem hafna í öðru sæti í riðlunum fjórum í undankeppninni. Dregið verður í umspilið eftir hálfan mánuð á lokadegi Evrópumeistaramótsins sem stendur nú yfir í Frakklandi.

Rétt á fyrstu mínútum leiksins varð aðeins vart við spennu í leikmönnum íslenska liðsins enda var verkefnið þeirra ærið. En þegar liðið fann taktinn var ekki að sökum að spyrja. Það hreinlega neistaði að leikmönnum íslenska liðsins þegar þeir komust á bragðið. Ráðleysislegur leikur Asera varð vatn á myllu íslenska liðsins. Vörnin var hreyfanleg og sló hin fáu vopn Asera úr höndum þeirra með þeim afleiðingum að þeim féll allur ketill í eld. Íslenska liðið gekk á lagið og skoraði hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup, oft eftir að hafa komst inn í sendingar Asera, sem virðast vera algjörir byrjendur í íþróttinni. Munurinn jókst jafnt og þétt og þegar upp var staðið var forskotið 19 mörk að loknum fyrri hálfleik, 28:9. Fyrirliðinn Þórey Rósa Stefánsdóttir hafði þá skorað níu mörk og Hafdís Renötudóttir varið 11 skot í markinu.

Íslenska liðið hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og jók jafnt og þétt við forskot sitt. Eftir liðlega 17 mínútur í síðari hálfleik var 27 marka múrinn brotinn. Liðið hélt bara áfram að bæta við, gaf ekkert eftir og hélt einbeitingu til leiksloka sem er talsverð kúnst þegar leikið er gegn slöku liði sem hefur lagt árar í bát.

Ísland 49:18 Aserbaídsjan opna loka
60. mín. Marta Abbasova (Aserbaídsjan ) fékk 2 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert