„Við trúðum þessu sjálfar“

Arna Sif Pálsdóttir
Arna Sif Pálsdóttir Ljósmynd/Robert Spasovski

Arna Sif Pálsdóttir er leikreyndasti leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik um þessar mundir. Hún lék sinn 142. landsleik í fyrradag í Skopje þegar landsliðið tryggði sér keppnisrétt í umspili fyrir HM með ævintýralegum stórsigri á landsliði Aserbaídsjan, 49:18.

Arna Sif er þar með orðin jöfn Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur sem næstleikjahæsta landsliðskona Íslands. Aðeins Hrafnhildur Ósk Skúladóttir hefur oftar klæðst íslensku landsliðstreyjunni, í 170 skipti.

Arna Sif segir það hafa mikil og góð áhrif á íslenska landsliðið að hafa tryggt sér umspilssætið og komast þar með upp á næsta stig eftir að hafa misst naumlega af sætinu í undankeppninni fyrir tveimur árum. „Nú sjáum við fram á að fá að keppa um sæti á HM. Það hefur afar jákvæð og hvetjandi áhrif á kvennahandboltann þegar landsliðinu gengur vel og það sér fram á að við getum hugsanlega komist inn á stórmót eins og við gerðum þrjú ár í röð, 2010, 2011 og 2012. Að ná árangri og brjóta ísinn eins og við gerðum í gær ýtir undir áhugann. Á því leikur enginn vafi,“ sagði Arna Sif þegar Morgunblaðið rabbaði við hana á alþjóðaflugvellinum í Zagreb snemma í gærmorgun þar sem hún var stödd á heimleið frá Makedóníu eftir undankeppnina.

Mikil vonbrigði á laugardaginn

„Við höfum um skeið sett okkur það markmið að lyfta okkur á styrkleikalistanum eftir að hafa verið í neðri hlutanum undanfarin ár í kjölfar mikilla breytinga á landsliðshópnum. Þess vegna voru það mér og Þóreyju Rósu Stefánsdóttur, sem hefur verið í landsliðinu eins lengi og ég, mikil vonbirgði þegar við töpuðum leiknum við Makedóníu á laugardaginn. Viðureign sem við vorum vissar um að geta unnið og þar með unnið riðilinn. Þegar við komum út á hótel eftir tapleikinn var það fyrsta sem kom upp í huga okkar að leggja allt í sölurnar gegn Aserbaídsjan í lokaumferðinni. Skilja bara allt eftir á leikvellinum. Og við gerðum það allar sem ein og uppskeran var eftir því, stórsigur sem aldrei gleymist og sæti í HM-umspilinu eins og hópurinn stefndi að,“ sagði Arna Sif sem eins og fyrr segir hefur lengi leikið með landsliðinu, en rúmur áratugur er liðinn síðan hún klæddist A-landsliðstreyjunni í fyrsta skipti.

Sjá allt viðtalið við Örnu Sif í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert