„Enginn Færeyingur gerist þræll í öðru landi“

Turið Arge Samuelsen hefur skorað 30 mörk í Olís-deildinni í …
Turið Arge Samuelsen hefur skorað 30 mörk í Olís-deildinni í vetur. mbl.is/Hari

Uni Arge, faðir handknattleikskonunnar Turið Arge Samuelsen sem leikið hefur með Haukum í vetur, segir leikmanninn hætta hjá liðinu vegna „óvissu um samningsatriði“, en ekki „vanefnda“ eins og ranglega hafi verið farið með í frétt mbl.is af málinu í kvöld.

Ekki kemur fram í hverju „óvissan“ felst, í tölvupósti sem Uni sendi mbl.is nú í kvöld, og hann hefur ekki svarað spurningum þess efnis. Þorgeir Haraldsson sagði í viðtali við mbl.is í kvöld að staðið hefði verið við alla samninga við Turið en hún hefði á móti ekki efnt loforð um að sinna starfi aðstoðarþjálfara 3. flokks kvenna, eins og krafist er í samningnum sem mbl.is hefur undir höndum.

Uni segir að þrátt fyrir að Haukar hafi staðið við gerða samninga hafi komið upp ákveðið ósætti á milli aðila. Í maí hafi Turið vissulega samþykkt að aðstoða við þjálfun 3. flokks kvenna hjá Haukum, samhliða því að vera leikmaður liðsins, en þá hafi ekki legið ljóst fyrir að hún þyrfti að þjálfa liðið fjórum sinnum í viku og mæta á leiki um helgar. Þetta hafi bæst við hennar eigin æfingar og leiki, sem og hálft starf í frístundaheimili Hauka.

„Hún gat ekki sinnt þessu öllu, enda móðir lítils barns og getur ekki verið í burtu frá barninu á hverju kvöldi í öðru landi,“ segir Uni í tölvupósti sem hann sendi mbl.is.

Kveðst hafa reynt að semja um lækkun launa

Uni kveðst hafa rætt við Hauka um málið fyrir hönd dóttur sinnar, og að hann hafi lagt til að hún myndi lækka í launum gegn því að þjálfa ekki 3. flokk. Svar Hauka á fundi 19. nóvember hafi hins vegar verið á þá leið að félagið vildi hætta að greiða henni laun, og það hafi verið ítrekað í tölvupósti nokkrum dögum síðar. Turið fékk þó greidd laun nú um mánaðamótin, bæði sem leikmaður Hauka og fyrir starf sitt á frístundaheimili félagsins, en Uni segir meintar hótanir Hauka hafa valdið miklu ósætti:

„Ég reyndi að semja við þá um lækkun launa, en það bar engan árangur. Þeir svöruðu ekki. Þeir vildu bara taka burt öll launin. Þeir stóðu fastir á þessu í 14 daga. Þá varð mér ljóst að þeir ætluðu aldrei að borga henni neitt sem leikmanni. Þeir vildu bara borga fyrir aðstoðarþjálfara og þegar hún gat ekki sinnt því þá reyndu þeir að neyða hana til að spila handbolta frítt. Eins og þræll í öðru landi,“ segir Uni.

„Það kom auðvitað ekki til greina. Þeim var sagt nokkrum sinnum að þetta væri óásættanlegt. Þeir voru varaðir við því að leikmaðurinn væri sífellt að verða óánægðari með stöðuna. Þeir voru varaðir við því að hún gæti farið. Ég grátbað þá nokkrum sinnum um að láta þetta ganga upp, en þeir sýndu gríðarlega hörku eins og þetta væru samningaviðræður á milli Kína og Bandaríkjanna. Ég hef aldrei upplifað annað eins, og ég er enn í sjokki yfir þessu,“ segir Uni.

Hann vilji þó taka fram að Haukar séu frábært félag með frábært fólk innanborðs, en að vandamálið séu 2-3 stjórnarmenn. „Þeir voru of hrokafullir til að sjá hvað væri að gerast. Þeir verða að læra að hlusta, því enginn Færeyingur gerist þræll í öðru landi,“ segir Uni sem á árum áður var einn besti knattspyrnumaður Færeyja og þekkir vel til á Íslandi eftir að hafa skorað 14 mörk í 40 leikjum fyrir Leiftur og ÍA í úrvalsdeildinni á árunum 1998 til 2000.

Uni Arge lék með Leiftri og ÍA hér á landi …
Uni Arge lék með Leiftri og ÍA hér á landi á sínum tíma og var framherji færeyska landsliðsins. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert