Guðjón Valur með 9 mörk í toppslag

Guðjón Valur Sigurðsson hættir ekki að skora.
Guðjón Valur Sigurðsson hættir ekki að skora. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Á sama tíma og Guðjón Valur Sigurðsson er orðaður við Frakklandsmeistara PSG raðar hann inn mörkum fyrir Rhein-Neckar Löwen en Guðjón var markahæstur í mikilvægum 28:22-sigri á Magdeburg í kvöld, í þýsku 1. deildinni í handbolta.

Guðjón skoraði níu mörk, þar af sjö í fyrri hálfleik, og Alexander Petersson skoraði fjögur. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt marka Kiel sem vann Stuttgart af öryggi, 32:19. Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk í 29:20-útisigri Füchse Berlín á Gummersbach.

Erlangen, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, vann svo afar þýðingarmikinn 26:24-útisigur á Bietigheim. Erlangen er þá með 10 stig í 14. sæti en Bietigheim er með 6 stig í 17. sæti, fallsæti.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel eru í 2. sæti deildarinnar með 30 stig eftir 17 leiki, tveimur stigum á eftir Flensburg sem á leik til góða. Magdeburg er í 3. sæti þrátt fyrir tapið í kvöld, með 26 stig, en Löwen á tvo leiki til góða á Magdeburg og Kiel og er með 25 stig. Füchse er svo með 20 stig í 5. sæti og hefur leikið 16 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert