Guðjón Valur til Parísar?

Guðjón Valur Sigurðsson hefur raðað inn mörkum hvar sem hann …
Guðjón Valur Sigurðsson hefur raðað inn mörkum hvar sem hann spilar og franska deildin gæti verið næst á dagskrá. Ljósmynd/Uros Hocevar

Eftir að hafa orðið Danmerkurmeistari, Þýskalandsmeistari og Spánarmeistari með sínum félagsliðum gæti Guðjón Valur Sigurðsson næst verið á leiðinni í titilbaráttu í franska handboltanum með stórliði PSG frá og með næstu leiktíð.

Þetta fullyrðir franski miðillinn Le Parisien sem segir að íslenski landsliðsfyrirliðinn sé hugsaður sem arftaki Þjóðverjans Uwe Gensheimer, í annað sinn á ferlinum. Guðjón kom nefnilega aftur til Rhein-Neckar Löwen sumarið 2016, frá Barcelona, þegar Gensheimer gekk í raðir PSG.

Samningur Gensheimers við PSG rennur út næsta sumar og kveðst Þjóðverjinn vilja ganga frá sínum málum áður en að heimsmeistaramótið hefst í næsta mánuði. Samkvæmt Le Parisien mun Gensheimer halda til Löwen, þar sem hann spilaði í 13 ár.

Le Parisien segir einnig að Guðjón Valur gæti mögulega gengist undir læknisskoðun hjá PSG þegar í næstu viku, og skrifað undir samning í kjölfarið sem tæki gildi næsta sumar, en samningur Guðjóns við Löwen rennur út næsta sumar. Liðsfélagi hans, Alexander Petersson, gerði nýverið nýjan samning við Löwen sem gildir til ársins 2021.

Nóg eftir á tanknum

Guðjón Valur er orðinn 39 ára gamall en hefur ekki sýnt nein merki þess í vetur að hann sé farinn að eldast. Hann var til að mynda valinn leikmaður 1. umferðar í Meistaradeild Evrópu í haust og á dögunum skoraði hann sitt 2000. mark í efstu deild Þýskalands. Handball Planet tilnefndi hann sem einn af fjórum bestu vinstri hornamönnum heims og stendur sú kosning enn yfir.

Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson gleðjast eftir sigur Löwen …
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson gleðjast eftir sigur Löwen í Meistarakeppninni í Þýskalandi upphafi leiktíðar, þriðja árið í röð.

Guðjón Valur hefur á sínum ferli sem atvinnumaður leikið í Þýskalandi, Danmörku og á Spáni, eftir að hafa farið frá KA sumarið 2001. Hann lék áður með Gróttu og Gróttu/KR í upphafi ferilsins.

Ríkt félag sem rakað hefur inn titlum

PSG Handball hefur stimplað sig inn sem stórlið á síðustu árum eftir að vellauðugir katarskir eigendur knattspyrnuliðs PSG keyptu einnig handknattleiksliðið árið 2012. Síðan þá hefur liðið haft á að skipa heimsklassaleikmönnum í öllum stöðum og rakað inn titlum, en liðið hefur meðal annars orðið franskur meistari fjögur ár í röð auk þess að leika úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2017 og í undanúrslitum keppninnar í vor.

Á meðal leikmanna liðsins í dag eru Mikkel Hansen, Thierry Omeyer, Sander Sagosen, Henrik Toft Hansen, Luc Abalo og fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert