Hef oftar þurft að taka af skarið en áður

Ásbjörn Friðriksson stingur sér framhjá Birki Benediktssyn og Árna Braga …
Ásbjörn Friðriksson stingur sér framhjá Birki Benediktssyn og Árna Braga Eyjólfssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Að minnsta kosti er ég að skila fleiri mörkum til liðsins en stundum áður en hvort ég hef leikið betur en stundum fyrr er erfitt að fullyrða,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, handknattleiksmaður hjá FH sem að mati Morgunblaðsins er besti leikmaður fyrri helmings úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olís-deildarinnar.

Ásbjörn hefur skorað tæp átta mörk að jafnaði í leik það sem af er leiktíð og verið akkeri FH-liðsins í sókninni og stýrt leik liðsins af festu.

„Undanfarin tvö ár hef ég kannski skotið sjaldnar á markið en í vetur vegna þess að þá var ég að hluta til með aðra leikmenn með mér í sókninni. Núna hef ég á stundum þurft að taka oftar af skarið og fengið fleiri marktækifæri. Fyrir vikið þá lítur tölfræðin betur út en stundum áður. En hvort ég er að leika betur fyrir liðið en á síðustu árum er erfitt að segja til um en vissulega er ég persónulega ánægður hvernig mér hefur gengið á handboltavellinum í vetur,“ sagði Ásbjörn þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans laust eftir hádegið í gær.

Ásbjörn segir ekki að fullu sanngjarnt að bera saman þann eina leik sem hann missti af vegna leikbanns og leikinn gegn KA um síðustu helgi og segja að sóknarleikur FH-liðsins sé mikið betri þegar hann er með. Jóhann Birgir Ingvarsson hafi leyst hann af á miðjunni í leiknum fyrir norðan og ekki getað beitt sér af fullum krafti vegna meiðsla.

Um ástæður þess að vel hafi gengið í vetur segir Ásbjörn að það velti á mörgum þátt. Hann hafi til dæmis verið heppinn að sleppa við meiðsli. „Sennilega er það því að þakka að ég hef verið duglegur að hugsa um sjálfan mig á milli leikja til þess að vera klár í slaginn á leikdegi,“ sagði Ásbjörn og bæti við að það komi e.t.v. með reynslunni og árunum.

Sjá allt viðtalið við Ásbjörn og úrvalslið fyrri umferðar í Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert