Kiel fær úrslitakeppni EHF-bikarsins

Alfreð Gíslason þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason þjálfari Kiel. Ljósmynd/THW Kiel

Framkvæmdastjórn Evrópska handknattleikssambandsins, EHF, hefur ákveðið að úrslitakeppni fjögurra liða um EHF-bikar karla í vor verði leikin í Kiel í Þýskalandi, á heimavelli Alfreðs Gíslasonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar.

Kiel mun fyrir vikið sleppa við að leika í átta liða úrslitum keppninnar, svo framarlega sem liðið vinnur sinn riðil í sextán liða úrslitunum, eða verður eitt þriggja liða af fjórum með bestan árangur í öðru sæti.

Kiel er í riðli með Granollers frá Spáni, GOG frá Danmörku og Azoty-Pulawy frá Póllandi en riðlakeppnin er leikin frá 9. febrúar til 31. mars. Átta liða úrslitin verða leikin í apríl en úrslitahelgin síðan í Kiel 17. og 18. maí.

„Strax og ljóst var að við myndum leika í EHF-bikarnum á þessu tímabili tilkynntum við að við hefðum áhuga á að halda úrslitakeppnina. Undanfarnar vikur höfum við rætt málin við EHF og erum ánægðir með að geta boðið hinum stóra hópi handknattleiksáhugafólks í Kiel og Schleswig-Holstein einn stórviðburð til viðbótar á þessu keppnistímabili,“ sagði Viktor Szilagy, íþróttastjóri Kiel og fyrrverandi landsliðsmaður Austurríkis, þegar ákvörðunin var tilkynnt.

Takist Kiel ekki að komast áfram úr riðlakeppninni, eða falli út í átta liða úrslitum, verður félagið eftir sem áður í hlutverki gestgjafa úrslitakeppninnar, án þess að leika þar sjálft.

Meðal sterkustu liða sem komin eru í sextán liða úrslit og líklegt til að slást um sæti í fjögurra liða úrslitunum eru Füchse Berlín og Hannover-Burgdorf frá Þýskalandi og Saint-Raphaël frá Frakklandi, sem og spænsku liðin Granollers, Cuenca og Logrono La Rioja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert