Leika stelpurnar hans Þóris sama leik og Danir?

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP

Norska kvennalandsliðið í handknattleik undir stjórn Þóris Hergeirssonar er í sömu stöðu á Evrópumótinu og karlalandslið Dana var í árið 2012.

Eftir átta marka tap á móti Rúmenum í lokaumferð riðlakeppninnar í gær hefja lærimeyjar Þóris keppni í milliriðli án stiga og eftir leikinn í gær sagði Þórir að möguleikarnir á að komst í undanúrslitin séu mjög litlir.

En Danir undir stjórn Ulriks Wilbeks voru í sömu stöðu og Norðmenn á Evrópumótinu í Serbíu 2012. Þeir fóru í milliriðilinn án stiga en stóðu engu að síður uppi sem Evrópumeistarar.

Danir unnu alla þrjá leiki sína í milliriðlinum og úrslitin í öðrum leikjum í milliriðlinum voru Dönum hagstæð. Þeir höfnuðu í 2. sæti í milliriðlinum og komust í undanúrslitin þar sem þeir höfðu betur á móti Spánverjum 25:24. Danir hömpuðu svo Evrópumeistaratitlinum með því að vinna Serba í úrslitaleiknum 21:19.

Nú er bara að vona að Þórir og stelpurnar hans leiki sama leik og Danir gerðu fyrir sex árum. Norðmenn mæta Ungverjum, Hollendingum og Spánverjum í milliriðlinum. Norðmenn eru ríkjandi Evrópumeistarar en þeir hömpuðu titlinum fyrir tveimur árum og vörðu þá titil sinn.

mbl.is