Skrefið ekki alltof stórt

Andrea Jacobsen.
Andrea Jacobsen. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér hefur gengið vel en því miður er liðið í botnbaráttu,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið, spurð um hvernig henni líkaði lífið hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad HK.

Andrea yfirgaf Fjölni í sumar og fluttist til Svíþjóðar og gerði samning við Kristianstad HK um leið og kærasti hennar, Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson, varð liðsmaður karlaliðs sama félags.

„Ég kann afar vel við mig og líkar vel við lífið ytra og býst ekki við að koma heim á næstunni,“ sagði Andrea og hló við.

Andrea er markahæsti leikmaður Kristianstad með 38 mörk í níu leikjum auk þess sem hún hefur átt 15 stoðsendingar. Kristianstad er í næstneðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig að loknum níu leikjum. Um þessar mundir er hlé á keppni í sænsku úrvalsdeildinni vegna þátttöku sænska landsliðsins í Evrópumótinu sem stendur yfir í Frakklandi. Þráðurinn verður tekinn upp á ný í upphafi næsta árs.

„Fyrir utan að við erum neðarlega í deildinni þá hefur annað í kringum handboltann og liðið staðist væntingar og jafnvel gott betur,“ sagði Andrea og bætti við að þótt hún væri ekki nema tvítug þá hefði hún lengi alið með sér þann draum að leika með félagsliði utan Íslands og hafa það að atvinnu að æfa og keppa í handknattleik.

Aðalmálið að halda sér í deildinni

„Ég er mjög ánægð að byrja í sænsku deildinni. Það er skref upp á við en samt sem áður ekkert alltof stórt fyrsta skref. Leikurinn er aðeins hraðari en heima og meira af ungum leikmönnum sem hafa hungur í að ná langt. Ég hef leikið 45 til 50 mínútur í hverjum leik sem er framar vonum. Aðalmálið núna er að við náum að halda sæti okkar í deildinni þegar upp verður staðið í vor. Takist það verð ég mjög sátt við mitt fyrsta ár í atvinnumennsku í handbolta,“ sagði Andrea sem lék alla þrjá landsleiki íslenska landsliðsins í undanriðli heimsmeistaramótsins, sem leikinn var í Skopje um síðustu helgi.

Sjá allt viðtalið við Andreu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »