Sóttu sín fyrstu stig gegn Svíum

Jelena Despotovic og stöllur í liði Svartfjallalands eru komnar á ...
Jelena Despotovic og stöllur í liði Svartfjallalands eru komnar á blað. AFP

Svartfjallaland náði í sín fyrstu stig í milliriðli 1 á EM kvenna í handbolta í kvöld með sigri á Svíþjóð, 30:28. Sigurinn var í raun öruggari en lokatölurnar bera með sér.

Svartfellingar komust mest sex mörkum yfir í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 18:14 þeim í hag. Svíum gekk mjög illa að hleypa spennu í leikinn í seinni hálfleiknum á meðan að þær svartfellsku léku oft við hvern sinn fingur. Sér í lagi áttu hornamennirnir Jovanka Radicevic og Majda Mehmedovic góðan dag en Radicevic skoraði 9 mörk og Mehmedovic 7. Isabelle Gullden var markahæst Svía með 7 mörk.

Eftir að staðan var 28:21 skoruðu Svíar hins vegar fjögur mörk í röð, minnkuðu muninn í 28:25, þegar enn voru þrjár mínútur eftir. Þá skoraði Svartfjallaland og fór langt með að tryggja sér sigur þó að Svíar næðu að minnka muninn í tvö mörk fyrir lok leiks.

Svartfjallaland tók engin stig með sér í milliriðilinn en liðið tapaði naumlega fyrir Rússlandi og með fimm mörkum gegn Frakklandi, svo liðið er með tvö stig. Hið sama má segja um Svíþjóð sem vann Serbíu fyrr í mótinu.

Staðan í milliriðli 1 er því þannig að Frakkland og Rússland hafa 4 stig en Serbía, Svíþjóð, Svartfjallaland og Danmörk 2 stig hvert. Rússland og Serbía eiga leik til góða og mætast á laugardaginn, en þá mætast einnig Svíþjóð og Frakkland.

mbl.is