Fjölnir jók við forskotið á toppnum

Brynjar Loftsson skoraði sex marka Fjölnis.
Brynjar Loftsson skoraði sex marka Fjölnis. mbl.is/Ómar

Fjölnismenn eru á réttri leið í tilraun sinni til að snúa strax aftur upp í Olís-deild karla í handbolta eftir að hafa fallið þaðan í vor.

Fjölnir er með þriggja stiga forskot á toppi Grill 66 deildarinnar eftir sigur á Haukum U í kvöld, 27:23, á Ásvöllum. Fjölnismenn voru 16:9 yfir í hálfleik. 

Brynjar Loftsson var markahæstur Fjölnis með 6 mörk en þeir Hafsteinn Óli Ramos Rocha, Breki Dagsson og Björgvin Páll Rúnarsson skoruðu 5 mörk hver. Hjá heimamönnum voru þeir Guðmundur Bragi Ástþórsson og Hallur Kristinn Þorsteinsson markahæstir með 6 mörk hvor.

Fjölnir hefur unnið níu af tíu leikjum sínum og er með 18 stig. Valur U er í 2. sæti með 15 stig og Haukar U með 14 stig í 3. sæti.

Þróttur vann Víking 32:22 en ekki hefur borist leikskýrsla úr þeim leik, sem fram fór í Laugardalshöll. Með sigrinum komst Þróttur upp fyrir Víking og FH U og er í 5. sæti með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert