„Tókst aldrei að loka gatinu“

Sverrir Jakobsson ræðir við sína menn í kvöld.
Sverrir Jakobsson ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyrar, þurfti í annað skiptið á þessu tímabili að sætta sig við eins marks tap gegn KA í Olís-deild karla í handbolta. KA-menn voru yfir í leiknum frá miðjum fyrri hálfleik og herslumun vantaði hjá Akureyri til að ná sér í stig eða tvö. Svo for að lokum að KA vann 26:25 en Akureyri skoraði tvö síðustu mörkin.

„Það er alltaf erfitt að kyngja tapi. Við vorum mjög nálægt því að fá eitthvað út úr þessum leik eftir að hafa verið að elta stærstan hluta leiksins. Við náðum nokkrum áhlaupum en ekki nógu löngum til að loka þessu bili sem KA hafði á okkur. Við náðum tvívegis í seinni hálfleik að nálgast þá en tókst ekki að fara alla leið. Jovan kom þá einmitt með smá rispu í marki KA og það hjálpaði þeim mikið. Þess vegna tókst okkur aldrei að loka gatinu eins og við ætluðum okkur að gera. Við gáfumst þó aldrei upp en þegar verið er að elta svona lengi þá þarf mikið að ganga upp hjá liðinu. Við vorum nálægt því í lokin og það er svekkjandi að hafa verið svona nálægt því að fá stig.“

Stefán Árnason, þjálfari KA, vill meina að fyrri hálfleikurinn hjá KA hafi verið það besta sem liðið hefur sýnt í sóknarleik í vetur. Þeir voru virkilega beittir.

„Þeir voru mjög góðir og það verður ekki af þeim tekið en á móti kemur að mér fannst við ekki vera að mæta þeim með þeim vinnuaðferðum sem við ætluðum okkur. Við vorum lengi í gang, kannski eitthvað stressaðir, og fundum ekki tengingar í vörninni sem voru að virka. Það kom á endanun með nýjum mönnum en í svona leikjum þá verða menn bara að vera tilbúnir frá byrjun. Þeir sem byrja leikinn þurfa allir að vera um borð. Í þetta skiptið var það því miður ekki svoleiðis.“

KA byggði þarna upp sex marka forskot sem þið náðuð aldrei að vinna upp, sama hvað þið reynduð.

„Þetta gerðist líka í fyrri leik liðanna og þá náðum við þeim en töpuðum samt. Þá þurfti líka allt að ganga upp eins og í kvöld. Því miður varð þetta nánast alveg eins nema hvað við vorum lengra frá þeim í þessum leik.“

Það voru augnablik í kvöld þar sem þið voruð við það að ná KA en þá komu dýrkeypt mistök sem þið máttuð ekki við.

„Já það passar. Við klúðrum hraðaupphlaupi og köstuðum svo bolta beint í hendurnar á þeim. Svona lagað drepur aðeins niður keyrsluna á liðinu og gefur andstæðingnum byr undir báða vængi. Ég get ekki kvartað yfir mínu liði. Menn gáfu allt í þetta og börðust til loka. Því miður dugði það ekki og það er eiginlega þannig að til að vinna leiki þá þurfa allir að vera í sínum leik“ sagði Sverre að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert