Afturelding í toppbaráttuna

Elvar Ásgeirsson sækir að vörn Stjörnunnar, gegn Aroni Degi Pálssyni.
Elvar Ásgeirsson sækir að vörn Stjörnunnar, gegn Aroni Degi Pálssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Afturelding vann góðan 33:27-heimasigur á Stjörnunni í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Fyrir leikinn var Stjarnan búin að vinna fimm leiki í röð, en Aftureldingarmenn voru mun sterkari í dag og var sigurinn sannfærandi. Með sigrinum fór Afturelding upp í 15 stig og upp að hlið FH í fjórða sætinu.

Leikurinn var mjög jafn framan af og skoruðu bæði lið nánast í hverri sókn. Staðan var 6:6 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður og munurinn aldrei meiri en eitt mark. Aftureldingu óx ásmegin eftir því sem leið á hálfleikinn.

Mosfellingar náðu tveggja marka forystu í fyrsta skipti í stöðunni 8:6 og bættu þeir hægt og rólega í. Að lokum munaði fimm mörkum á liðunum í hálfleik, 18:13. Stærsti munurinn á liðunum var sá að Sigurður Ingiberg Ólafsson og Sveinbjörn Pétursson vörðu varla skot í marki Stjörnunnar, á meðan Pálmar Pétursson hjá Aftureldingu varð heitur undir lok hálfleiksins.

Afturelding hélt áfram að bæta í forskotið í upphafi seinni hálfleiks og var munurinn sjö mörk snemma í honum, 20:13. Stjörnunni gekk illa að minnka muninn á næstu mínútum. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var munurinn hins vegar kominn niður í fjögur mörk, 24:20.

Stjarnan hélt áfram að minnka muninn og og var hann tvö mörk, átta mínútum fyrir leikslok, 26:24. Þá gaf Afturelding aftur í og vann að lokum sanngjarnan sigur. 

Afturelding 33:27 Stjarnan opna loka
60. mín. Leik lokið Afturelding ætlar sér toppbaráttu.
mbl.is