Rússland og Holland í toppmálum

Lois Abbingh skýtur að marki Rúmeníu í Frakklandi í kvöld.
Lois Abbingh skýtur að marki Rúmeníu í Frakklandi í kvöld. AFP

Ólympíumeistarar Rússlands eru með fullt hús stiga á toppi milliriðils 1 á EM kvenna í handbolta eftir sigur á Serbíu í kvöld, 29:25. Holland vann toppslaginn við Rúmeníu af nokkru öryggi í milliriðli 2, 29:24.

Rússland er langt komið með að tryggja sér sæti í undanúrslitum en liðið er með 6 stig, Frakkland 5 og Svíþjóð 3, en Serbía, Svartfjallaland og Danmörk 2 stig hvert. Rússar eiga eftir leiki við Dani á morgun og Svía í lokaumferðinni, en Serbar mæta Svartfellingum á morgun og Dönum á miðvikudaginn.

Dari Dmitrieva var markahæst Rússa í kvöld með sjö mörk og hefur nú skorað 300 mörk fyrir rússneska landsliðið. Katarina Krpez Slezak skoraði einnig sjö mörk fyrir Serba.

Sigur Hollands á Rúmeníu var öruggur en liðið komst þó ekki áfallalaust í gegnum leikinn, því fyrirliðinn Nycke Groot fór meidd af velli. Tess Wester, markvörður Hollands, var valin maður leiksins en hún varði 15 skot. Þær Debbie Bont og Lois Abbingh voru markahæstar Hollands með 6 mörk hvor en Eliza Buceschi  skoraði 8 mörk úr 9 skotum fyrir Rúmeníu.

Holland er nú eina liðið í milliriðli 2 með fullt hús stiga, eða sex stig. Holland, Þýskaland og Ungverjaland eru með 4 stig hvert og Noregur 2, en Rúmenía, Holland og Noregur eiga tvo leiki eftir og hin liðin einn. Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, mætir Hollandi á þriðjudaginn en þá mætast einnig Spánn og Rúmenía. Lokaumferðin er svo á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert