Danir lágu í því og Rússar í undanúrslit

Stine Bodholt Nielsen og Anne Mette Hansen í vörn Dana …
Stine Bodholt Nielsen og Anne Mette Hansen í vörn Dana í dag. Anna Jakhireva fær að kenna á kröftum þeirra, en hún fór á kostum í leiknum. AFP

Rússar urðu í kvöld fyrsta þjóðin til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í handknattleik sem nú stendur yfir í Frakklandi. Danir voru engin fyrirstaða fyrir þær rússnesku sem unnu stórsigur 32:21.

Rússar voru með fullt hús stiga í sínum milliriðli fyrir leikinn og hefði jafntefli dugað þeim áfram. Þær tóku hins vegar frumkvæðið strax snemma leiks í Nantes í dag og voru fimm mörkum yfir í hálfleik 14:9. Danir náðu ekki að klóra í bakkann eftir hlé og unnu þær rússnesku öruggan ellefu marka sigur 32:21.

Anna Vjakhireva fór á kostum hjá Rússum en hún skoraði níu mörk úr níu skotum. Hjá Dönum var Kathrine Heindahl atkvæðamest með fimm mörk.

Serbía og Svartfjallaland mætast síðar í kvöld í baráttunni um hitt sætið upp úr milliriðlinum og áfram í undanúrslit. Einnig eru Frakkar og Svíar með í baráttunni. Danir eru á botni milliriðilsins og eiga ekki möguleika á sæti í undanúrslitum, en þær dönsku mæta Svartfjallalandi í lokaleik sínum á miðvikudag en Rússar mæta Svíum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert