Segja Guðjón búinn að semja við PSG

Guðjón Valur Sigurðsson og Mikkel Hansen verða liðsfélagar næsta vetur ...
Guðjón Valur Sigurðsson og Mikkel Hansen verða liðsfélagar næsta vetur ef að líkum lætur. Samsett/Árni/AFP

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, náði í gær samkomulagi við franska stórliðið PSG og verður nýr leikmaður og aldursforseti liðsins frá og með næsta tímabili.

Þetta fullyrðir franski miðillinn Le Parisien sem í síðustu viku sagði að Guðjón Valur væri líklegur arftaki þýska hornamannsins Uwe Gensheimer hjá PSG. Samningur Gensheimers við PSG rennur út næsta sumar, rétt eins og samningur Guðjóns við Rhein-Neckar Löwen. Allt útlit er fyrir að Gensheimer snúi aftur til síns gamla félags Löwen í stað Guðjóns.

Guðjón kvaðst í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn ekki geta tjáð sig um framtíð sína „á þessu stigi málsins“. Hann kvaðst þó geta sagt að engin ákvörðun hefði enn verið tekin af fjölskyldunni og að hann hefði ekki skrifað undir neina samninga.

Le Parisien bendir á að Guðjón Valur verði nýr aldursforseti PSG á næsta tímabili en þegar það hefjist verði Guðjón orðinn fertugur. Franski landsliðsmarkvörðurinn Thierry Omeyer er elsti leikmaður PSG í dag en hann hefur gefið út að hann muni hætta næsta sumar.

Með PSG leika margar af stærstu stjörnum handboltaheimsins eins og Mikkel Hansen, Nikola Karabatic, Sander Sagosen, Luc Abalo og fyrrnefndir Omeyer og Gensheimer. Þjálfari liðsins er Spánverjinn Raúl González sem meðal annars náði frábærum árangri með lið Vardar og gerði liðið að Evrópumeistara árið 2017.

mbl.is