Tandri hættir hjá Skjern

Tandri Már Konráðsson í búningi Skjern.
Tandri Már Konráðsson í búningi Skjern. Ljósmynd/heimasíða Skjern

Tandri Már Konráðsson, landsliðsmaður í handknattleik, hættir hjá danska meistaraliðinu Skjern að þessu tímabili loknu en félagið greindi frá þessu á heimasíðu sinni í dag.

Þetta er þriðja tímabil Tandra með Skjern en hann hefur verið í stóru hlutverki í varnarleik liðsins.

„Mér finnst ég eiga heima í Skjern svo það verður erfitt fyrir mig og fjölskylduna að yfirgefa félagið og bæinn. Ég mun leggja allt mitt í sölurnar til þess að við verðum aftur danskir meistarar í vor en næsta sumar verður kominn tími á að breyta til,“ segir Tandri á heimasíðu Skjern.

„Það er skemmtilegt en líka erfitt að vera í stóru félagi sem gerir miklar breytingar á milli leikja. Ég sakna þess að spila ekki meiri sóknarleik. Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa spilað í grænu treyju liðsins og hefði aldrei látið mig dreyma um að vinna þessa titla og fá alla þessa reynslu í Meistaradeild Evrópu. Þessar minningar mun ég ávallt varðveita,“ segir Tandri.

Carsten Thygesen stjórnarformaður Skjern segir að Tandri hafi skilað þýðingarmiklu hlutverki hjá félaginu.

„Tandri er vinnuhestur sem býr yfir miklum metnaði og ástríðu. Bæði á þann hátt sem sést á vellinum en ekki síður á sviðum sem ekki ber eins mikið á. Við vonum öll að við getum lokið þessari þriggja ára samvinnu með nýjum verðlaunum,“ segir Thygesen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert