Noregur einu marki frá undanúrslitunum

Norðmenn ná ekki að verja Evrópumeistaratitilinn.
Norðmenn ná ekki að verja Evrópumeistaratitilinn. AFP

Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska landsliðinu í handknattleik ná ekki að verja Evrópumeistaratitilinn. Það var ljóst eftir sigur Hollendinga gegn Þjóðverjum í lokaumferð í milliriðli tvö á Evrópumótinu í Frakklandi í kvöld.

Norðmenn þurftu að stóla á sigur Þjóðverja til að komast í undanúrslitin en Hollendingar unnu nokkuð öruggan sigur 27:21. Hollendingar tryggðu sér þar með farseðilinn í undanúrslitin ásamt Rúmenum. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2000 sem Norðmenn vinna ekki til verðlauna á Evrópumóti en þeir hafa hampað titlinum í tvö síðustu skipti. Norðmenn voru einu marki frá því að komast í undanúrslitin en ef Ungverjar hefðu unnið Rúmena með þriggja marka mun í stað tveggja hefðu lærimeyjar Þóris komist í undanúrslitin.

Kelly Dulfer og Estevana Polman skoruðu 6 mörk hvor fyrir Hollendinga en hjá Þjóðverjum var Angie Geschke markahæst með 5 mörk.

Heimsmeistarar Frakka burstuðu Serba og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitunum ásamt ólympíumeisturum Rússa. Frakkar fögnuðu 10 marka sigri 38:28. Estelle Minko skoraði 9 mörk fyrir Frakka og Mannon Houette skoraði 7.

Í undanúrslitunum mætast:

Frakkland - Holland
Rússland - Rúmenía

Norðmenn mæta Svíum í leiknum um 5. sætið í París á föstudaginn. Sigurvegarinn kemst í umspil um sæti á Ólympíuleikunum.

mbl.is