Dramatískur sigur Aftureldingar

Elvar Ásgeirsson, Aftureldingu, sækir að vörn Hauka, Ásgeiri Erni Hallgrímssyni …
Elvar Ásgeirsson, Aftureldingu, sækir að vörn Hauka, Ásgeiri Erni Hallgrímssyni og Halldóri Inga Jónassyni, í leik liðanna í Olísdeildinni á Varmá fyrir nærri mánuði. mbl.is/Hari

Afturelding komst í átta liða úrslit Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í kvöld eftir dramatískan sigur á Haukum, 25:24, þar sem dómarar leiksins, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, máttu grípa til þess ráðs að skoða upptöku af sigurmarki Mosfellinga áður en þeir felldu úrskurð um hvort markið væri gilt eða ekki. Birkir Benediktsson skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins, var niðurstaða dómaranna, og Aftureldingarmenn stigu sigurdans á fjölum Schenker-hallar Haukanna.  

Aftureldingarliðið var sterkara í leiknum í 45 mínútur. Liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, eftir að hafa leikið afar vel, ekki síst í vörn auk þess sem Pálmar Pétursson var sterkur í markinu og Elvar Ásgeirsson fór á kostum í sóknarleiknum.

Framan af síðari hálfleik virtust Mosfellingar ætla að halda sjó. Þeir náðu mest sex marka forskoti, 19:13, snemma í hálfleiknum. Upp úr miðjum síðari hálfleik lifnaði loks yfir liði Hauka. Vörn liðsins þéttist og Andri Scheving tók að verja allt hvað af tók. Smátt og smátt unnu Haukar upp það fjögurra marka forskot sem Afturelding hafði náð um miðjan hálfleikinn, 21:17. Þeir jöfnuðu metin, 23:23, og aftur 24:24 þegar hálf mínúta var til leiksloka og var þar að verki Daníel Þór Ingason. 

Afturelding átti lokasóknina og nýtti hana vel eftir að hafa tekið leikhlé þegar 21 sekúnda var eftir af leiktímanum. Fjórum sekúndum fyrir leikslok vann Afturelding aukakast, eftir að brotið hafði verið á Birki þegar hann kastaði að marki Hauka. Upp úr aukakastinu skoraði Birkir sigurmarkið þegar hann þrumaði boltanum upp í markhornið efst, hægra megin við Andra, markvörð Hauka. 

Orri Freyr Þorkelsson og Daníel Þór Ingason voru markahæstir hjá Haukum með sex mörk hvor. Elvar Ásgeirsson skoraði flest mörk Aftureldingarmanna, sjö eins og hetja liðsins, Birkir Benediktsson. 

Pálmar Pétursson átti afbragsleik í marki Aftureldingar og varði 15 skot.

Haukar 24:25 Afturelding opna loka
60. mín. Daníel Þór Ingason (Haukar) skoraði mark - 30 sekúndur eftir af leiktímanum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert