Birkir hetja Mosfellinga á Ásvöllum

Birkir Benediktsson, Aftureldingu.
Birkir Benediktsson, Aftureldingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Örvhenta stórskyttan Birkir Benediktsson reyndist hetja Aftureldingar þegar hann tryggði liði sínu sæti í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikarkeppninnar í handknattleik í gærkvöldi.

Birkir skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndu leiksins en svo glöggt stóð hvort markið væri gilt eða ekki að dómarar leiksins, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, voru ekki vissir fyrr en þeir höfðu litið á upptöku af markinu á sjónvarpsskjá. Lokatölur, 25:24. Mosfellingar ærðust af fögnuði í leikslok. Þeir sungu og dönsuðu um allan leikvöllinn í leikslok og héldu stuðinu áfram í klefanum eftir leik með því að leika gamla diskóslagara af miklum hljóðstyrk svo undir tók í íþróttahúsinu.

Sigurinn var fyllilega sanngjarn þótt hann hafi verið óþarflega naumur þegar upp var staðið. Aftureldingarliðið lék við hvern sinn fingur í 45 mínútur. Það var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11, og náði mest sex marka forskoti snemma í síðari hálfleik, 19:13. Leikmenn Hauka virtust daufir og áttu erfitt með að ná upp viðunandi leik, hvort heldur var í vörn eða sókn. 

Nánari umfjöllun um leiki gærkvöldsins má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert