Eigum möguleika á móti Spánverjum

Axel Stefánsson fylgist með sínum konum.
Axel Stefánsson fylgist með sínum konum. Ljósmynd/Robert Spasovski

Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, var ánægður með að Ísland og Spánn mætast í umspili um sæti á EM í Japan á næsta ári. Dregið var í umspilinu í París í dag mbl.is heyrði í landsliðsþjálfaranum. 

„Þetta verður skemmtilegt. Spánverjar spila flottan handbolta. Þær stimpla mikið og eru grimmar í gegnumbrotum. Það verður gaman að sjá hvort við náum að stoppa það með 5-1 vörninni okkar. Þetta gat verið verra og þetta gat verið betra, en þetta er fyrst og fremst skemmtileg áskorun."

Spánn vann aðeins einn leik á yfirstandandi lokamóti EM og tapaði fimm. Axel segir Spánverja samt sem áður vera með gott lið. 

„Þær eru búnar að vera á toppnum undanfarin ár, en það virðast vera ákveðin kynslóðaskipti. Alexandrina Barbosa spilaði ekki með þeim á EM, en hún er búin að vera þeirra besti leikmaður síðustu ár. Það mun styrkja liðið gríðarlega ef hún verður með.

Spænska liðið er með aðra góða leikmenn eins og Nerea Pena sem spilar í Ungverjalandi. Hún er þeirra besti leikmaður ásamt Navarro í markinu. Þetta eru heimsklassa leikmenn en ég hef trú á að þetta gæti verið lið sem hentar okkur ágætlega."

Ísland tryggði sér sæti í umspilinu með mögnuðum sigri á Aserbaídsjan í forkeppninni á dögunum. Axel vill halda áfram að byggja ofan á þá leiki. 

„Við viljum byggja á því áfram og halda áfram að refsa liðunum eins og við gerðum þá. Það hefur vantað hjá okkur að refsa eftir góðar varnir. Við náðum því mjög vel á móti Aserbaídsjan og Tyrkjum. Spánverjar mættu Tyrkjum á dögunum og það var jafn leikur að stórum hluta. Við eigum að eiga möguleika á að stríða Spánverjum," sagði Axel Stefánsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert