Botnliðið skellti Selfossi

Selfyssingurinn Einar Sverrisson sækir að marki Akureyrar í fyrri leik …
Selfyssingurinn Einar Sverrisson sækir að marki Akureyrar í fyrri leik liðanna í vetur. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Óvæntustu úrslit Olísdeildar karla í handbolta í vetur urðu á Selfossi í dag þar sem botnlið Akureyrar vann sannfærandi sigur á toppliði Selfoss, 28:34.

Það var snemma ljóst hvert stefndi. Akureyringar spiluðu hörkuvörn frá fyrstu mínútu og stemmningin var öll þeirra megin. Staðan í hálfleik var 13:19.

Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik og þegar liðið hafði skorað fimm mörk í röð og minnkað muninn í tvö mörk, 19:21, fóru þeir vínrauðu að gera sér vonir. En Akureyringar voru fljótir að svara fyrir sig og gerðu það með stæl - fimm marka áhlaup og staðan orðin 21:28.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta. Selfyssingar voru ekki líklegir til þess að koma til baka og Akureyringar héldu áfram - í góðum gír - með leikgleðina að leiðarljósi.

Guðjón Baldur Ómarsson og Einar Sverrisson skoruðu báðir 5 mörk fyrir Selfoss og Pawel Kiepulski varði 8 skot á lokakaflanum. Hjá Akureyri var Ihor Kopyshynskyi markahæstur með 11/3 mörk og Hafþór Vignisson skoraði 7. Maður leiksins var hins vegar Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrar, sem varði 25/2 skot í leiknum.

Selfoss 28:34 Akureyri opna loka
60. mín. Pawel Kiepulski (Selfoss) varði skot
mbl.is