Eiga meira inni en önnur lið

Fannar Þór Friðgeirsson skoraði 7 mörk fyrir ÍBV í dag.
Fannar Þór Friðgeirsson skoraði 7 mörk fyrir ÍBV í dag. mbl.is/Sigfús Gunnar

Fannar Þór Friðgeirsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara ÍBV, er ánægður með uppskeru liðsins í desembermánuði. Mbl.is ræddi við hann í Garðabænum þar sem ÍBV nældi í tvö stig í Olís-deildinni. 

„Þetta var svakalega mikilvægur sigur og lokar góðum desembermánuði fyrir okkur. Eftir erfiða byrjun höfum við nú unnið fjóra leiki í röð. Erum um miðja deild en einnig í 8-liða úrslitum í bikarnum. Við getum því andað rólega og unnið vel í okkar málum í janúar,“ sagði Fannar sem var mjög drjúgur fyrir ÍBV í 28:27 sigri á Stjörnunni í dag og var það sérstaklega mikilvægt fyrir Eyjamenn því þeir léku án Sigurbergs Sveinssonar. 

Hann er bjartsýnn á gott gengi ÍBV eftir hið langa frí sem nú tekur við í deildinni. „Ég er viss um að við eigum mest inni af öllum liðum í deildinni vegna þess að við byrjuðum mótið hræðilega. Þetta er allt að koma því við erum að vaxa sem lið. Ég hugsa að við hefðum klúðrað þessum leik ef hann hefði farið fram í september en okkur tókst að klára dæmið í dag. Það sýnir styrk hjá liðinu.“

Miklar breytingar urðu á meistaraliðinu á milli tímabila. Bæði varðandi leikmenn en einnig urðu þjálfaraskipti. Spurður um hvort ekki hafi verið eðlilegt að hnökrar hafi verið í leik liðsins fyrstu vikurnar tekur Fannar undir það. „Jú jú. Það urðu miklar breytingar á liðinu. Ekki er til dæmis oft talað um að til stóð að Andri Heimir Friðriksson yrði með okkur en hann fór skyndilega í Fram. Auk þess urðu breytingar í lykilstöðum á vellinum og það tekur bara tíma að vinna úr stöðunni en við erum að eflast,“ sagði Fannar Þór Friðgeirsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert