Eins marks sigur ÍBV í Mýrinni

Garðar Benedikt Sigurjónsson, línumaður Stjörnunnar, skorar í leiknum í dag ...
Garðar Benedikt Sigurjónsson, línumaður Stjörnunnar, skorar í leiknum í dag án þess að Róbert Sigurðsson og Theodór Sigurbjörnsson, leikmenn ÍBV komi vörnum við. mbl.is/Hari

Íslands- og bikarmeistararnir í ÍBV náðu í tvö stig í 13. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Garðabænum í dag með eins marks sigri á Stjörnunni 28:27. Theodór Sigurbjörnsson skoraði sigurmarkið þegar hálf mínúta var eftir.

Theodór skoraði alls ellefu mörk í leiknum og þar af átta mörk í fyrri hálfleik þegar hann fékk að leika lausum hala í hraðaupphlaupum. Stjarnan fékk tækifæri til að jafna leikinn í síðustu sókninni en Björn Björnsson varði þá skot Árna Þórs Sigtryggssonar. 

Árni hafði tekið við sér á lokakaflanum og skorað tvö mikilvægt mörk þegar Stjarnan náði að hleypa spennu í leikinn. Eyjamenn voru fjórum mörkum yfir þegar sjö mínútur voru eftir en Garðbæingar sýndu seiglu og jöfnuðu leikinn þegar mínúta var eftir. 

Að loknum fyrri hálfleik var ÍBV einnig marki yfir 13:12. Þá hafði ÍBV einnig náð fjögurra marka forskoti sem Stjörnunni tókst að vinna upp. 

Theodór var markahæstur hjá ÍBV eins og gefur að skilja en Fannar Þór Friðgeirsson skoraði 7 mörk. Framlag hans var mjög mikilvægt fyrir ÍBV þar sem Sigurbergs Sveinssonar naut ekki við og þeir Dagur Arnarson og Kristján Örn Kristjánsson náðu sér ekki á strik. Björn varði 12 skot í marki ÍBV. 

Hjá Stjörnunni átti Egill Magnússon góða spretti en týndist inn á milli.  Þegar hann náði að komast í loftið þá skaut hann ágætlega á markið og skoraði 7 mörk. Garðar var baráttuglaður á línunni og Sveinbjörn Pétursson hélt Stjörnunni inni í leiknum í fyrri hálfleik með ellefu vörðum skotum. Rétt er að geta þess að hinn markvörður Stjörnunnar varði þrjú vítaköst en í tveimur tilfellum hafnaði frákastið hjá andstæðingunum. Garðbæingar léku án Bjarka Más Gunnarssonar og Léos Snæs Péturssonar.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 27:28 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með eins marks sigri ÍBV 28:27. Eyjamenn unnu eftir atvikum sanngjarnan sigur. Voru með ágætt forskot í seinni hálfleik en Garðbæingar náðu að jafna undir lok leiksins og sýndu vissa seiglu. Theodór skoraði sigurmarkið úr horninu þegar hálf mínúta var eftir.
mbl.is