Frakkland Evrópumeistari á heimavelli

Frönsku leikmennirnir fagna innilega eftir að sigurinn var vís.
Frönsku leikmennirnir fagna innilega eftir að sigurinn var vís. AFP

Frakkland varð rétt í þessu Evrópumeistari með því að leggja Rússland að velli, 24:21, í úrslitaleik Evrópumeistaramótsins í handknattleik í París. Náðu þær frönsku þar með hefndum fyrir ósigurinn gegn Rússum á Ólympíuleikunum fyrir tveimur árum.

Leikurinn var hnífjafn lengst af og skiptust liðin á að hafa forystuna í fyrri hálfleik. Að lokum voru Frakkar einu marki yfir í hléinu, 13:12, en Alexandra Lacrabere var sem fyrr öflug í liði Frakka og skoraði sjö mörk í leiknum.

Í síðari hálfleik hertu Frakkar tökin á heimavelli sínum í París og voru með 2-3 marka forystu allt til enda. Anna Vyakhireva skoraði sjö mörk fyrir Rússa en hún var valin besti leikmaður mótsins fyrr í dag. Góð frammistaða hennar í dag dugði Rússum þó ekki til og urðu þeir að láta sér silfur nægja í annað sinn á Evrópumeistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert