Haukar keyrðu yfir KA í síðari hálfleik

Daníel Þór Ingason sækir að varnarmönnum KA í leiknum í ...
Daníel Þór Ingason sækir að varnarmönnum KA í leiknum í dag. mbl.is/Hari

Atli Már Báruson átti stórleik fyrir Hauka og skoraði tíu mörk þegar liðið vann fimm marka sigur gegn KA í 13. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í dag en leiknum lauk með 33:28-sigri Hafnfirðinga.

Mikið jafnfræði var með liðunum til að byrja með og skiptust liðin á að skora. Hafnfirðingar náðu tveggja marka forystu eftir tíu mínútna leik en alltaf kom KA til baka. Þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik kom Atli Már Báruson Haukum í 15:14. Haukar létu kné fylgja kviði og náðu þriggja marka forskoti þegar mínúta var eftir af fyrir hálfleik en Andri Snær Stefánsson lagaði stöðuna fyrir KA með marki úr vítakasti og staðan því 18:16 í hálfleik, Haukum í vil.

Akureyringar mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og tókst að jafna metin í 19:19 eftir sjö mínútna leik. Akureyringar fengu tækifæri til þess að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum á 37. mínútu en Tarik Kasumovic skaut yfir úr upplögðu færi. Haukar vöknuðu við þetta og bókstaflega keyrðu yfir Akureyringa og náðu fimm marka forskoti þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Akureyringar fóru oft og tíðum illa að ráði sínu í sóknarleiknum og tókst ekki að minnka mun Hafnfirðinga og lokatölur í Hafnafirðinum 33:28, Haukum í vil.

Atli Már Báruson fór mikinn í liði Hauka og skoraði tíu mörk, þar af tvö af vítalínunni en hjá KA var Áki Egilsnes atkvæðamestur með sex mörk. Grétar Ari Guðjónsson varði níu skot í marki Hauka og Jovan Kukobat varði átta skot í marki KA. Haukar eru komnir í efsta sæti deildarinnar með 19 stig en KA fellur niður í áttunda sætið og er áfram með 10 stig.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Haukar 33:28 KA opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með fimm marka sigri Hauka sem var í raun aldrei í hættu.
mbl.is