Nánast upp á líf og dauða

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var hæstánægður með sigur sinna manna …
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var hæstánægður með sigur sinna manna gegn KA í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög ánægður með strákana. Þetta var þriðji leikurinn okkar á sjö dögum og ég er því afar ánægður með þennan sigur hér í dag,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 33:28-sigur liðsins gegn KA í 13. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í dag.

„Það er búið að vera mikið álag á okkur og við erum komnir á þann stað í mótinu þar sem leikmenn fara að finna fyrir þreytu og álagi. Í dag snerist þetta fyrst og fremst um að ná í stigin tvö og það tókst. Þetta var enginn stjörnuleikur hjá okkur enda KA með gott lið en við gerðum það sem við þurftum. Við erum með góða breidd í hópnum og það er því mikilvægt að allir leikmenn liðsins stigi upp þegar við erum í erfiðleikum.“

Gunnar segir að það hafi verið gríðarlega mikilvægt fyrir Hauka að fara með sigur á bakinu inn í jólafríið sem nú tekur við.

„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkur og nánast upp á líf og dauða. Við lögðum þennan leik upp sem hálfgerðan úrslitaleik enda gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fara inn í jólafríið með sigur á bakinu, ekki bara upp á töfluna að gera, heldur líka upp á andlega þáttinn,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert